145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

stefna og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára.

338. mál
[11:12]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við göngum innan tíðar til atkvæða um fyrstu marktæku áætlun stjórnvalda um umbætur í geðheilbrigðisþjónustu og ég fagna þeim áfanga. Mig langar að leggja sérstaka áherslu á tvo þætti í þessu, annars vegar að í nefndarálitinu er lögð áhersla á að sérhæft, þverfaglegt heilsuteymi fyrir þá sem eru heyrnarlausir og heyrnarskertir og hins vegar að tungumálið táknmál verði nýtt í þessu sérhæfða heilsuteymi. Það tel ég afar mikilvægt í því verkefni sem hér liggur fyrir sem og þá áherslu sem lögð er á að koma til móts við börn og unglinga sem eiga við geðræn vandamál að stríða með snemmtækri íhlutun vegna þess að kerfið okkar, heilsugæslan, félagsþjónustan og skólar, er í öllum færum til þess að gera svo hafi það til þess fjármagn.

Ég skora á þingheim allan að veita þessu máli brautargengi.