145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:35]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég er sammála því að það sé ótækt að fjármálaráðherra sé ekki viðstaddur þessa umræðu, en eins og þingmaðurinn bendir á kom það ítrekað fram í gær, bæði með efnislegum athugasemdum og háðsglósum, að þessi tillaga væri ekki til góðs fyrir málið. Raunar var undirtónninn í þeim málflutningi fjármálaráðherra allur með þeim hætti að ekki þurfti mikla textagreiningu til að átta sig á því að hann var fyrst og fremst að tala um sjálfan sig, þ.e. að skilin þyrftu að vera við skattsvik, þetta snerist um skattsvik en ekki um starfsemi aflandsfélaga í skattaskjólum. Hann velur að skilgreina vandann með þeim hætti að það henti hans stöðu, sem er óásættanlegt með öllu.

CFC-lögin auðvitað breyttu mjög miklu enda höfðu þau og sú aðferðafræði verið í farvatninu um langt árabil og krafa skattyfirvalda um að slíkt yrði leitt í lög en var ekki gert fyrr en undir vinstri stjórn. Af hverju skyldi það nú vera að það var ekki gert fyrr en undir vinstri stjórn?

CFC-lögin, þrátt fyrir að hæstv. fjármálaráðherra orði það með öðrum hætti sem segir að við höfum þá eiginlega lögleitt aflandsfélög, hann orðar það með þeim hætti, snúast auðvitað um það að lágmarka skaðann. Það var markmiðið með þeirri löggjöf.

Einnig hefur komið fram að upplýsingaskiptasamningarnir, svo góðir sem þeir eru, bíta ekki með þeim ekki sem vænst var í byrjun. Við sitjum uppi með að andlag skattheimtunnar er (Forseti hringir.) í raun og veru orð þess sem félagið á, svo mikils virði sem þau eru á hverjum tíma.