145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:42]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni þetta. Áður en ég svara spurningu hennar langar mig að geta þess, af því að það fórst fyrir í framsögu minni áðan, að ég legg til að málinu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til umfjöllunar.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvaða afstöðu ég hafi til skattaskjóla almennt. Það er einfalt, eins og fram kom í minni framsögu, og ég tek undir ábendingu hennar um varfærið orðalag. Mín afstaða er mjög skýr; ég tel að skattaskjól séu í sjálfu sér skaðleg vegna þess að þau skapi skjól. Með því að halda því fram að eitthvað af starfseminni sé í lagi þá skapa þau skjól fyrir háalvarlega alþjóðlega starfsemi eins og tilflutninga á fjármagni í kringum vopnasölu, mansal og aðra slíka starfsemi sem er háalvarlegt viðfangsefni allra samfélaga.

Þannig að skilgreining fjármálaráðherrans, hins íslenska fjármálaráðherra og skattamálaráðherra, er ekki bara frétt fyrir okkur. Hún er í raun og veru frétt á heimsvísu, þ.e. að á meðan fjármálaráðherrar Evrópusambandsins og OECD og Norðurlöndin og svo framvegis eru að beita sér gegn starfseminni sem slíkri þá talar fjármálaráðherra Íslands af stakri léttúð um starfsemina og talar jafnvel um heilbrigða skattasamkeppni sem endurspeglist að hluta með því sem hann kallar lögmæta starfsemi í aflandsfélögum.

Það er ekki hægt að Ísland þoli það að vera með fjármálaráðherra sem talar með þessum hætti um aflandsstarfsemi. (Forseti hringir.) Það gengur einfaldlega ekki að ábyrgur fjármálaráðherra tali þannig.