145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:44]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svar hennar og er henni hjartanlega sammála um þetta vegna þess að með starfrækslu aflandsfélaga, með því að leyfa þau, hafa þau við lýði, þá er í raun og veru verið að skekkja allar leikreglur, heimila undanskot, auðvelda leynd og ógagnsæi. Það getur aldrei talist heilbrigt í samfélaginu þegar einar leikreglur eiga að gilda um almenning en einhverjar aðrar um þá sem stunda fjármálaviðskipti og þess háttar.

Þess vegna er það auðvitað óþolandi staða að við skulum hafa í ríkisstjórninni tvo ráðherra, þar á meðal fjármálaráðherra, æðsta stjórnvald skattamála í landinu, sitjandi eins og ekkert hafi í skorist eftir þann alvarlega trúnaðarbrest sem kominn er upp sem tengist þessum málum.

Ég tek undir það með hv. þingmanni að fjármálaráðherrann á að sjá sóma sinn í því að segja af sér og auðvitað á ríkisstjórnin að fara frá.