145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:46]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Af því hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ekki hér — og ég óska eftir því eindregið, forseti, að hann verði kallaður til þessarar umræðu — þá verður maður bara að hafa eftir honum það sem hann hefur sagt um þessa tillögu og um stöðu mála. Það má í raun og veru velta því fyrir sér hvort hann sé ekki með sínu orðalagi hér á Alþingi sá sem er að gera aflandsfélög lögmæt. Hugsið ykkur bara hversu alvarlegt það er að tala af slíkri léttúð um aflandsfélög, tala af léttúð um skattaskjól, jafnvel að Ísland sé skattaskjól, því þar með er það hann, skattamálaráðherra Íslands, sem er að segja okkur, þjóðinni, heiminum, að þetta sé lögmætt í þeim skilningi að það sé að minnsta kosti siðlegt, að það sé í lagi og raunar til fyrirmyndar. (Forseti hringir.) Það er það alvarlega í þessari stöðu.