145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil segja að ég styð þessa þingsályktunartillögu heils hugar.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji ekki að það þurfi líka að fara fram opinber rannsókn á tilurð aflandsfélaganna og hvort við þurfum ekki að fá svör við því hvernig þau urðu til og hvaðan peningarnir komu til þess að stofna þau félög. Við vitum að íslenska bankakerfið tók að láni rúmlega 5.000 milljarða fyrir hrun á skuldabréfamörkuðum og við vitum að þau lán voru áfram veitt til eignarhaldsfélaga. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur þetta allt mjög vel fram og í 9. bindinu, í yfirliti yfir arðgreiðslur, t.d. til Gervimanns útlönd, eins og það er kallað í skjölunum, en sá maður, Gervimaður útlönd, var annar stærsti þiggjandi arðgreiðslna íslenskra fyrirtækja á árinu 2008. Það var auðvitað ekkert smáræði sem þangað rann, 2.239 millj. kr. er arðgreiðslan til félaga í eigu Gervimanns útlönd á árinu 2008. Í skýrslunni er að finna mjög góðar upplýsingar um argreiðslur, bæði til einstaklinga sem bera heitið Gervimaður útlönd og eins til félaga sem voru stofnuð í útlöndum af Íslendingum. Þess vegna spyr ég: Verðum við ekki að bæta við tillögu um að opinber rannsókn fari fram á tilurð aflandsfélaganna til að rekja það hvaðan peningarnir komu og hvaða tjón í rauninni varð af þess völdum hér?