145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér hafa ræðumenn vakið athygli á því að á mælendaskrá er kominn einn þingmaður stjórnarflokkanna, hv. þm. Elín Hirst, hún er tíundi ræðumaður héðan í frá. Hér eru bekkirnir tómir, enginn ráðherra er í húsi og hér situr einn þingmaður stjórnarflokkanna í salnum.

Eru málefni skattaskjólanna og það sem verið hefur í gangi í samfélagi okkar á undanförnum vikum orðin eitthvert einkamál stjórnarandstöðunnar? Ríkisstjórnarflokkarnir sýna hér aftur og aftur í umræðum um þetta mál og núna með þátttökuleysi sínu í umræðunum að þeir hafa engan áhuga á því að gera neinar breytingar á þessari stöðu. Þeim finnst þetta allt í lagi. Svona vilja þeir bara hafa þetta, tvær þjóðir í landinu, önnur sem getur gert það sem hún vill og svo hin sem heldur þessu öllu uppi.