145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:58]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Ég vil, líkt og hv. þingmaður á undan mér, lýsa furðu minni á því að hér skuli þingmenn úr stjórnarliði ekki virðast ætla að taka þátt í umræðunni, með einni heiðarlegri undantekningu sem er hv. þm. Elín Hirst. Þetta er mál sem varðar okkur öll, ekki bara þá sem eru í stjórnarandstöðu, þetta varðar alla. Þess vegna eiga stjórnarþingmenn að taka þátt í umræðunni og ráðherrar eiga náttúrlega að sitja hér og að minnsta kosti hlusta á hana ef þeir vilja ekki taka þátt í henni. Þetta er algerlega óþolandi. Ég vil taka undir með hv. flutningsmanni frumvarpsins að hlé verði gert á umræðunni þangað til forustumenn ríkisstjórnarinnar hafa sýnt sig hér í húsi og hlusti á umræðuna og taki helst þátt í þeirri umræðu sem hér fer fram.