145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[11:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hér er verið að spretta upp einhverju mesta meini nútímans sem felst í því að örlítill hluti íslensku þjóðarinnar hefur orðið uppvís að því að flytja gríðarlegt magn af fjármunum í erlend skattaskjól, að því er virðist, að minnsta kosti í tilviki sumra, beinlínis til þess að komast hjá því að taka þátt í því að greiða fyrir far sitt í gegnum hið íslenska velferðarsamfélag. Það eitt í sjálfu sér er skandall.

En það er líka skandall þegar maður horfir yfir salinn og sér að hér er enginn sem tilheyrir öðrum stjórnarflokknum. (FSigurj: Ha?) Þó að hv. þm. Frosti Sigurjónsson bendi hér og pati úti í sal þá bíð ég eftir því að hann komi hingað sem formaður efnahagsnefndar og tjái okkur afstöðu sína.

Það stendur framsóknarmönnum næst að segja hvort þeir séu sammála (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra um að það sé bara allt í lagi með svona viðskiptahætti.