145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er almennt ekki þeirrar skoðunar að ráðherrar þurfi alltaf að vera til staðar þegar mál eru rædd. En hér erum við að ræða aflandsfélög og þá stöðu sem þingið er núna gagnvart hæstv. fjármálaráðherra í ljósi þess að málið varðar beinlínis hæstv. fjármálaráðherra.

Mér þykir það fráleitt að hafa ekki hæstv. fjármálaráðherra hér til þess að benda hv. flutningsmönnum þessarar góðu tillögu á hvað sé að henni, hvað sé rangt við hana. Af hverju ætti Alþingi ekki að greiða atkvæði með þessari tillögu? Þá þarf hæstv. fjármálaráðherra auðvitað að vera hér og hann þarf að taka þátt í umræðunum, í það minnsta stjórnarliðar, hefði ég haldið.

Nú er ég þriðji maður á mælendaskrá og ég býð það sæti handa þeim þingmönnum stjórnarmeirihlutans sem vilja taka til máls í minn stað og skal þá fara síðastur á mælendaskrá sjálfur ef það hjálpar til við að liðka fyrir umræðunni hér.

En umræðan þarf að eiga sér stað og þarf að eiga sér stað núna. Þá vil ég vekja athygli á því að þetta er mildari tillaga af tveimur sem við munum ræða hér í dag. Ef menn ætla ekki að ræða um hana hvenær ætla þeir að ræða þetta? Í fundarstjórn forseta?