145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:08]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er stundum sagt að hægt sé að segja mikið með þögninni. Það má kannski segja að það sé líka hægt að segja mikið með fjarverunni.

Þögnin í þessu tilviki er æpandi og fjarveran í þessu tilviki er æpandi. Forustumenn stjórnarflokkanna sem hafa ærið tilefni til að koma og gera Alþingi grein fyrir stöðu þessara mála, svo nátengdir sem báðir flokkarnir eru þessari starfsemi og ljóst hefur orðið á undanförnum dögum, kjósa að vera fjarverandi. Og ekki bara það, hafandi verið uppi með úrtölur undanfarna daga og málflutning af því tagi að erfitt er að ráða af honum annað en að ráðherrunum þyki þetta bara allt í lagi.

Nú er það þannig að í báðum tilvikum eru forustumenn í flokkunum sjálfir tengdir þessu, ef ekki beinlínis formennirnir sjálfir eins og í tilviki fjármála- og efnahagsráðherra. Forsætisráðherra, sveitastjórnarfulltrúar beggja flokka, ráðherrar beggja flokka, (Forseti hringir.) sérstakir trúnaðarmenn beggja flokka. Það eru búnar að vera afsagnir úr embættum í báðum stjórnarflokkunum. Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins farinn í Reykjavík, (Forseti hringir.) framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins farinn, forsætisráðherra farinn.

(Forseti hringir.) En samt er þetta svona lítið mál gagnvart formönnum stjórnarflokkanna að þeir kjósa að senda þjóðinni, sem mun örugglega taka eftir því, þau skilaboð að þetta þurfi ekki að ræða.