145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:34]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afar áhugaverða ræðu í þessum áhugaverðu málum, ég vil taka undir með þeim sem hér sitja að þetta eru afar mikilvæg mál. Ég er fyllilega sammála því og hef setið í þessari umræðu frá upphafi en verð því miður að fara héðan klukkan tvö og gat því ekki sett mig á mælendaskrá, en ég ætla að taka þátt í andsvörum og vona að ég fái að ræða aðeins við hv. þingmann.

Fyrst vil ég láta koma fram að afstaða mín til skattaskjóla er algerlega skýr. Ég er andvígur starfsemi þeirra og tel nauðsynlegt að Ísland verði hvorki meira né minna en í fararbroddi í því að berjast gegn starfsemi þeirra. Til þess eru nokkur skref mjög mikilvæg. Fyrsta skrefið er að gera sér grein fyrir umfangi vandans sem snýr að okkur. Um það fjallar þessi tillaga til þingsályktunar sem mér finnst að öllu leyti ákaflega áhugaverð og margt í henni sem ég tel að við getum stutt. Ég veit að í meðförum þingsins mun hún eingöngu batna og vona að hún nái fram að ganga. Það er afstaða mín til málsins.

Ég held að ákaflega mikilvægt sé að við gerum okkur grein fyrir heildarmyndinni. Við höfum aðeins séð hluta af henni nú þegar í þessum gagnaleka. Í efnahags- og viðskiptanefnd höfum við tekið frumkvæði að því sem nefnd að taka til okkar gesti til þess að kynna okkur hvað stjórnvöld hafa verið að gera, hvernig lögin eru og hvort það séu tækifæri til að bæta lögin. Ég mun gera það að tillögu að efnahags- og viðskiptanefnd skili skýrslu um það mál með tillögum sem nefndinni hafa borist um lagabætur, þannig að þingið muni fá þetta og geti rætt það hér sérstaklega.

Ég vildi spyrja hv. þingmann út í ræðu hans. Ég skil hann sem svo að hann styðji þetta mál heils hugar, eins og fleiri hér inni. Ég er sammála honum í því að það þarf að verða alger siðbót í þessu. Það er ekki hægt að una því að verið sé að grafa undan velferðarsamfélagi okkar með því að sumir taki eignir sínar og greiði ekki af þeim skatta eða af tekjum sínum. (Forseti hringir.) En ég kem að spurningu minni í seinna andsvari.