145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:38]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum að öllu leyti sammála um þetta, ég og hv. þingmaður. Það sem maður hefur tekið eftir eftir því sem maður fræðist betur um starfsemi aflandsfélaga og skattaskjóla er hversu erfitt er að ná tökum á þessu og erfitt að finna upplýsingar um þetta nema fyrir tilstilli leka á borð við þann sem hefur orðið hér og er stórmerkilegur. Í löndum sem eru á EES-svæðinu og Evrópska efnahagssvæðinu eru skattaskjól. Mér finnst töluverð hræsni í því hvernig bæði Bandaríkjamenn og Evrópska efnahagssvæðið fjalla um þetta. Skattasamkeppni verður mjög fljótt að skattaskjólum. Hugsanlega nýta öll skipafélög okkar sér skattaskjól til að skrá skip sín einhvers staðar þar sem þau þurfa ekki að borga mannsæmandi laun eða gjöld af launum áhafnarinnar, þeirra sem vinna um borð í skipunum. Við erum með orkufyrirtæki sem eru með tryggingafélög á Bahama-eyjum til þess einhvern veginn að nýta sér þá þjónustu sem er í skattaskjólum, allt löglegt, segja menn. Við veltum fyrir okkur frumvarpi um að sérfræðingar sem koma erlendis frá borgi minni skatta en sérfræðingar sem eru menntaðir og búsettir á Íslandi. Við erum með í Brussel þúsundir manna sem borga enga skatta af því þeir eru erindrekar. Við erum með … (Gripið fram í.) — Brussel er bara eitt stórt skattaskjól. (Gripið fram í.) Ég er á móti þessu. Ég er á móti þeirri elítuhugsun allri.

Ég held að við eigum öll að taka þátt í því að greiða skatta til samfélagsins. Nýlega var því breytt með forsetaembættið sem var skattfrjálst, að mér skilst. Mér fannst það gott. Ég held að við eigum öll að greiða skatta af laununum okkar, greiða skatt af fjármagnstekjum okkar. Þeir geta þá verið lægri þegar við tökum öll þátt. Við getum gert meira.

Það er talið að skattundanskotin séu 80 milljarðar en ég held að það sem er ekki skattundanskot, þar sem við erum með tvískinnung, sé enn hærri tala.