145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:45]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Ég skil ekki alveg síðari spurningu hv. þingmanns. Hún er um það hvort ég sé búinn að skipta um skoðun á þátttöku Íslands í Evrópusamstarfinu. Af hvaða tilefni er sú spurning? Það var ekkert sem ég sagði sem gaf tilefni til hennar. Ég er þeirrar skoðunar að Ísland ætti að vera innan Evrópusambandsins. Ég gæti til dæmis hugsað mér að fulltrúi Íslands í framkvæmdastjórninni yrði skeleggur maður eins og Guðlaugur Þór Þórðarson sem gæti beitt sér fyrir frumkvæði Íslands gegn skattundanskotum. Ég held að hv. þingmaður væri ákaflega vel fallinn til þess. Ég er þeirrar skoðunar að á Íslandi ríki núna kerfi þar sem eru mikil skattsvik. Þau hafa af núverandi stjórnvöldum verið metin á milli 80 og 100 milljarða. Ég veit ekki hvort það er meira eða minna hlutfall en innan Evrópusambandsins, það skiptir ekki meginmáli. Meginmálið er að við tökum höndum saman, hvort sem við erum innan eða utan Evrópusambandsins, til þess að uppræta skattsvik.

Ríkisstjórnin sem nú situr stendur andspænis því að það eru lagagloppur sem gera kleift fyrir Íslendinga að fara út úr Íslandi með peninga, geyma þá á reikningum í skattaparadísum þar sem lög og reglur viðkomandi lands eru þannig að hægt er að stela undan skatti. Þetta kalla ég lagagloppu. Því var haldið fram af forustumönnum í ríkisstjórninni sem hv. þingmaður styður að það væri ekki hægt að banna mönnum að eiga reikninga þar. Nú liggur það alveg skýrt fyrir, eftirlitsaðilinn sjálfur, ESA, hefur stigið fram og sagt: Það er hægt. Þar með er sú afsökun og forsenda, viðbára, fallin. Þá er ekkert sem kemur í veg fyrir það að hv. þingmaður geti tekið höndum saman með mér og bannað slíka reikninga.

Varðandi orð Johns Kays er ég þeirrar skoðunar að skattasniðganga sé óæskileg. Ég er þeirrar skoðunar að fyrirtæki og einstaklingar eigi að borga sína skatta eftir því sem (Forseti hringir.) hægt er í eigin heimalandi og það eigi ekki að beita neinum sérstökum (Forseti hringir.) undanbrögðum til þess. Ég hef sem handhafi framkvæmdarvalds verið aðili að mörgum fundum þar sem helstu forustumenn (Forseti hringir.) í Evrópu hafa einmitt verið að taka höndum saman um að uppræta það (Forseti hringir.) sem í munni hv. þingmanns (Forseti hringir.) heitir svo fallega skattasamkeppni.