145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[12:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég endurtek bara spurninguna. Ég skil ekki af hverju hún á að hafa verið óskýr því hv. þingmaður skilur hlutina mætavel.

Ég ætla þá að fara aftur yfir orð prófessorsins. Prófessorinn segir í viðtali við íslenska fjölmiðla, með leyfi forseta:

„Hann segir þá miklu máli skipta að fara varlega og skilja á milli þeirra fyrirtækja sem stofnuð eru í þessum ríkjum í heiðarlegum tilgangi annars vegar og hins vegar í þeim tilgangi að svíkja undan skatti eða þvætta peninga.“

Ég vil bara fá að vita hvort hv. þingmaður sé sammála nálgun prófessorsins hvað þetta varðar. Prófessorinn kemur hingað til þess að tala fyrir því að við tökum höndum saman með öðrum þjóðum til að uppræta skattundanskot, en hann segir að það sé mikilvægt að gera þennan greinarmun sem ég nefndi.

Ég spyr hv. þingmann aftur hvort hann sé sammála þessari nálgun prófessorsins eða ekki.

Varðandi ESB þá er hv. þingmaður í þessum ræðustól búinn að tala um að Lúxemborg sé skattaparadís. (ÖS: Var það, sagði ég.) Einn grunnur í Evrópusamstarfinu eða innri markaðar Evrópusambandsins, sem við erum þátttakendur í með EES, er frjálst flæði fjármagns. Það þýðir að við getum fjárfest til dæmis í fyrirtækjum í Lúxemborg. Það má vera að það sé hægt að banna einhverja reikninga, en hv. þm. Össur Skarphéðinsson getur stofnað fyrirtæki án vandkvæða og ég tala nú ekki um eftir að við erum búin að létta af fjármagnshöftunum sem hefur meðal annars verið baráttumál hv. þingmanns. Það er óhjákvæmilegt ef við tökum þátt í Evrópusamstarfinu, auðvitað enn þá frekar ef við förum í Evrópusambandið sem stundar þetta, sumir aðilar Evrópusambandsins. Og talandi um tvær þjóðir í einu landi, það er sérþjóð í Brussel sem vinnur hjá Evrópusambandinu sem borgar ekki skatta. Það er líka svo að 5% af útgjöldum Evrópusambandsins er eitthvað sem hverfur og menn vita ekki hvert fer. Endurskoðendur hafa bent á það í 20 ár.

Það sem ég er að vísa í, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) er hvort hv. þingmaður telji að við getum verið í Evrópusamstarfinu, bæði í EES og inni í Evrópusambandinu, ef við ætlum að banna þetta eins og hv. þingmaður talar um.

(Forseti hringir.) Svo vil ég spyrja aftur, virðulegi forseti, hvort hann sé sammála uppleggi prófessorsins eða ekki.