145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:09]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér hefur fundist það vera kostur hjá hv. þingmanni að hann hefur alla jafna sett sig inn í mál. Þess vegna kemur það mér á óvart að hv. þingmaður hafi ekki sett sig inn í þau mál sem snúa að því sem Píratar stjórna, þ.e. í Reykjavíkurborg.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hefur svo sannarlega tekið þátt í umræðu um þessi mál á opinberum vettvangi og annars staðar og hefur fengið fjölmargar fyrirspurnir í þinginu og ekkert hefur vantað upp á að hann hafi svarað fyrir þessi mál. Ekki neitt.

Hér var maður sem ég sakna og er fallinn frá, vinur okkar hv. þm. Pétur Blöndal. Hann þreyttist aldrei á að segja, og ég held að það hafi verið mikið til í því, að við í þinginu ættum að taka hlutverk okkar alvarlegar og við eigum ekki alltaf að þurfa hæstv. ráðherra, með fullri virðingu fyrir því góða fólki sem gegnir því embætti hverju sinni, til að ræða málin því það er okkar að taka ákvarðanir. Þó að hæstv. ráðherrar séu alla jafna flestir hv. þingmenn þá er það þannig að það er þingið sem á að taka ákvörðun, semja lögin og gefa línuna. Síðan er það framkvæmdarvaldið sem á að framkvæma. Það er hugmyndin og við viljum hafa, alla vega í orði kveðnu og vonandi í verki líka, aðskilnað þar á milli.

Mér finnst því slæmt ef menn eru ekki tilbúnir, því að ég held að við þurfum að ræða þessi mál af fullri alvöru og á dýptina og gott að fá þetta mál á dagskrá til að ræða það, og finnst vont ef allt snýst um það hverjir séu viðstaddir umræðuna. Ég hef tekið þátt í umræðunni eins og hv. þingmaður veit. Hv. þingmaður veit að stjórnarþingmenn hafa svo sannarlega fylgst með henni. Mér fannst sérstakt að verið væri að misnota liðinn hérna áðan, fundarstjórn forseta, til að tefja umræðuna af hv. stjórnarandstæðingum. En við getum ekki nálgast þetta öðruvísi en að ræða efnislega um málið.

Ef menn segja að aflandsfélög séu af hinu illa þá er svolítið sérstakt að þeir séu svo að standa fyrir stofnun aflandsfélaga á sama tíma.