145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:12]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú segir mér annar hv. þingmaður að þetta eignarhald hafi komið fyrir í ársreikningum Orkuveitunnar og sé því opinber gögn og því sé ekki hægt að fela það. En að því sögðu þekki ég ekki málavexti þess máls nógu vel til að segja eitthvað meira um það og því ætla ég ekkert að segja um það. Hv. þingmaður getur hneykslast eins og hann vill á því að til séu málefni í þessu samfélagi og í Reykjavíkurborg þá sérstaklega sem ég viti ekkert um. Þannig er það og þannig verður það áfram. Hluti af því að setja sig inn í mál er að bera virðingu fyrir muninum á því hvað maður veit og hvað maður veit ekki. Ég skammast mín ekkert fyrir það að vita ekki eitthvað um eitthvert mál sem er í gangi hjá borginni (Gripið fram í.) — og met það ef það er ekki það sem hv. þingmaður átti við.

Talandi um hv. þm. Pétur H. Blöndal, þann góða mann sem því miður er ekki með okkur lengur, þá minnist ég ræðu sem hann flutti þar sem hann sagði — og nú vona ég innilega að ég fari alveg hárrétt með hvað hann sagði — að hann sæi á þeim tímapunkti í það minnsta einungis tvær ástæður til að vera með félög á umræddum svæðum. Það væri annars vegar til að fela eignarhald og hins vegar til að skjóta undan skatti.

Nú má vel vera að til séu aðrar ástæður fyrir því að menn séu með slík félög í þessum löndum. Það geta verið lögmætar ástæður. Vandinn hér er að almenningur þarf að velta fyrir sér hvaða tilgangi það þjónar. Ef hægt er að svara því með einhverjum lögmætum hætti sem er skiljanlegur fyrir almenning, þá er það gott og vel. Það er hluti af því að taka alla þessa umræðu.

En að hæstv. ráðherra skattamála taki ekki þátt í umræðunni sem varðar hann sjálfan breytir því hversu mikið almenningur getur leyft sér að taka umræðuna trúverðuglega. Það er vandinn. Trúverðugleiki snýst ekki bara um að fylgja lögum. Það er oft sagt um réttlætið að ekki sé nóg að réttlætinu sé framfylgt. Það þurfi að sjást að því sé framfylgt. Það er eins með þetta. Ekki er nóg að lögmætar ástæður séu fyrir þessu. Það þurfi að sjást hvaða lögmætu ástæður það eru. Það er ekki skýrt og þess vegna er mikilvægt að þetta komi allt upp á yfirborðið og að menn flytji rök sín, sem ég vona að hæstv. ráðherra geri fyrr eða síðar.