145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum hér að ræða mál sem er nauðsynlegt að ræða og fara yfir. Og ég held að það sé líka nauðsynlegt að við gerum hvað við getum til þess að upplýsa fólk um hvað er í gangi hér. Það er mikilvægt að við séum ekki að dylgja um neina hluti heldur reynum að tala um þetta út frá staðreyndum. Hér var t.d. sagt áðan að þetta mál hefði fyrst og fremst komið upp, þ.e. þessi þjónusta, eftir að bankarnir voru einkavæddir. Það er rangt. Á bls. 14 í DV í dag eru sýndar heilsíðuauglýsingar frá ríkisbankanum Landsbankanum frá árinu 2000 þar sem var verið að bjóða upp á aflandsþjónustu. Með leyfi forseta, ætla ég að lesa upp úr auglýsingunni:

„Rekstur Fortuna sjóðanna fer fram á Guernsey, alþjóðlegri fjármálamiðstöð á Ermarsundi. Þar vaxa peningar í góðu skjóli og ná ávöxtun eins og hún gerist best í heiminum.“

Sá sem stóð fyrir þessu var síðan á síðasta kjörtímabili ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Þetta var allt saman eitthvað sem var vitað.

Ég sé ekki alveg hvernig við eigum að vinna á þessu án þess að gera það í samvinnu við aðrar þjóðir. Ég spurði einn hv. þingmann Samfylkingarinnar um það, af því að hann talaði mjög gegn þessu, talaði um boð og bönn o.s.frv., hvort Samfylkingin hefði eitthvað endurskoðað afstöðu sína til þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu og í Evrópusambandinu því ég á mjög erfitt með að sjá, meðan þeir aðilar taka ekki þátt í þessu af fullum krafti, hvernig við getum gert það ein. Nema þá bara að ganga úr EES, alla vega alls ekki ganga í ESB.

Skattsvik eru alltaf alvarleg og skiptir engu máli hvernig þau eru framkvæmd. Það er mikilvægt að við vinnum alltaf gegn þeim. En hér í umræðunni, m.a. af hv. þingmanni Samfylkingarinnar, hefur verið talað um að Lúxemborg sé skattaparadís. Menn hafa nefnt m.a. Kýpur og Möltu. Svo eru náttúrlega þessar eyjar sem ég vísaði í sem eru allar í Evrópu. Það er ekki verið að tala um Panama, sem er að vísu ekki eyja síðast þegar ég vissi, og Tortólu og hvað þessar eyjar heita allar.

Ég held að við ættum aðeins að gaumgæfa það sem gestur Samfylkingarinnar, John Kay, hefur sagt, en hann er einn þekktasti hagfræðingur Vesturlanda, kynntur þannig í fjölmiðlum, og prófessor við London School of Economics. Við ættum að líta í smiðju hans þegar við ræðum þessi mál ef við ætlum að ná raunverulegum árangri. Hann talar að vísu mjög skýrt um að mikilvægt sé að gera greinarmun á því þegar menn stofna félög sem þessi í heiðarlegum tilgangi og hinum sem eru annaðhvort að svíkja undan skatti eða eru í peningaþvætti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst það hljóma skynsamlega að gera greinarmun á því.

Hann segir líka, sem mér finnst vera kjarni máls, að við séum búin að þróa mjög flókið fjármálakerfi sem ýti undir þetta. Hann talar um uppstokkun í fjármálakerfinu. Ég hef talað fyrir því lengi og mun halda því áfram. Hann er ekki eini hagfræðingurinn eða forvígismaðurinn á þessu sviði sem talar með þeim hætti. Þessi umræða hefur t.d. verið mjög áberandi í Bandaríkjunum. Þar eru menn að reyna að vinna að því að koma m.a. ábyrgðinni á fjármálakerfinu úr höndum skattgreiðenda. Þessi umræða hefur ekki verið áberandi hér. Því miður hefur oft verið mikið um upphrópanir. Mér fannst hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson aðeins detta í það áðan að tala eins og hér hefði bara verið fjármálahrun á Íslandi og hefði ekkert með heiminn að gera. Við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Við tökum upp alla okkar löggjöf frá Evrópusambandinu þegar kemur að fjármálamarkaðnum. Það er enginn vafi á því að við sofnuðum á verðinum, en ein ástæðan var sú að það var fölsk vörn í því að taka blint upp það sem aðilar í Brussel, sem áttu að hafa bestu sérþekkinguna á þessum málum, lögðu fram og við hefðum átt að vera miklu meira á varðbergi. Bandaríski seðlabankinn bjargaði nokkurn veginn allri Evrópu. Hann þurfti meira að segja að bjarga Sviss og öðrum þjóðum Evrópusambandsins, en ekki okkur. Það var vel. Við björguðum Íslandi með því að setja hér neyðarlögin sem allir flokkar samþykktu með skömmum fyrirvara að undanskildum Vinstri grænum. Það er enginn vafi að það var afskaplega skynsamleg aðgerð.

Ég vísaði líka í það að Reykjavíkurborg undir forustu Samfylkingar, Vinstri grænna og Pírata, hefði nýverið staðið fyrir stofnun aflandsfélags. Nú veit ég ekki hvort það sé til þess að fela eitthvað eða gera eitthvað óeðlilegt, ég ætla mönnum það ekki, en mér finnst svolítið sérstakt hvernig menn tala á sama tíma og þeir ganga í slík verk. Ber þá kannski hæstan fyrrverandi viðskiptaráðherra sem tók nokkra hringi á afstöðu sinni til aflandsfélaga þegar hann varð uppvís að því að hafa tekið þátt í þessum ákvörðunum.

Við á þessu kjörtímabili höfum verið í fararbroddi eða í forustu með öðrum þjóðum OECD þegar kemur að því að vinna gegn skattsvikum. Við erum til dæmis í hópi 52 ríkja sem undirrituðu samkomulag 29. október 2014 í Berlín um að taka upp sameiginlega staðla til þess að veita upplýsingar á milli. Við erum í hópi ríkja sem kallast Early Adopters Group. Við höfum tekið þátt í sameiginlegu átaki Norðurlanda um gerð upplýsingaskiptasamninga við lágskattaríki frá árinu 2006. Svo var nú gengið í það og sett sérstakt fjármagn á fjáraukalögum til að kaupa upplýsingar um íslenska aðila sem eiga eignir á þessum svæðum. Síðan er hægt að nefna CFC-löggjöfina og BEPS-áætlunina og þar erum við með þeim þjóðum sem ganga fremst hvað þetta varðar. Menn tala síðan hér um það að við eigum að setja á fót sérstaka rannsóknarnefnd út af aflandsfélögunum. Ég held að við þurfum þá að líta til þess að við erum með sérstakar eftirlitsstofnanir sem vinna að þessum hlutum. Við þurfum líka að ákveða hvort við treystum þeim í þessum verkum eða ekki. Ég er hér að vísa í ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra. Eftir því sem ég best veit vinna þær stofnanir samviskusamlega og gefa ekki neitt eftir í að hafa uppi á skattsvikurum og núna sérstaklega á þessu sviði, ég vona að það sé á öðrum sviðum líka en sérstaklega á þessu sviði. Ég mundi ætla að það væri skynsamlegt í umræðunni að við mundum hlusta í það minnsta á þær eftirlitsstofnanir áður en við færum í að búa til einhver önnur batterí. Ég held að þeir aðilar sem séu best til þess fallnir að uppræta þetta séu eftirlitsstofnanirnar. En á sama hátt þurfum við að líta þá sérstaklega til lagaumgjarðarinnar, hvort það sé eitthvað sem við getum gert til að gera skattumhverfið einfaldara og skiljanlegra. Sömuleiðis fjármálakerfið eins og John Kay vísar hér til. Ég hvet menn til að lesa viðtöl við hann um þessi mál. Ég tel að hann leggi hlutina upp með réttum hætti.

Ég held að við ættum kannski líka að leita í smiðju fyrrverandi hv. þm. Lilju Mósesdóttur, sem fékk nú ekki góðar trakteringar hjá félögum sínum í Vinstri grænum á síðasta kjörtímabili þegar hún var með allra handa hugmyndir ásamt okkur sem vorum þá í minni hluta hv. viðskiptanefndar um að reyna að upplýsa um eignarhald og annað slíkt. Við eigum líka að byrja á því, það er það sem við erum búin að vinna að og munum klára, að opna til dæmis upplýsingar sem eru í hinu svokallaða leyniherbergi sem er afskaplega mikilvægt að við upplýsum um. Þar erum við líka að tala um samninga um gríðarlega mikla eignatilfærslu frá ríkinu til einkaaðila sem aldrei hafa litið dagsins ljós. Það sem mér finnst áhugavert í Panama-skjölunum og mér finnst að við þurfum að líta til þess hvernig vinnubrögðin hafa verið hjá slitastjórnunum, það virðist vera að líka hafi orðið eignatilfærsla til ákveðinna aðila sem ég vissi í það minnsta ekki um, kannski fylgist maður bara ekki nógu vel með. Ég vona að þessi mál hafi verið unnin með þeim hætti að þetta hafi verið opið og gagnsætt ferli. Við þekkjum sömuleiðis söluna á ríkiseignum í gegnum bankana, Vestia bar hátt á síðasta kjörtímabili. Borgun á þessu kjörtímabili. En þegar við fengum svarið frá Landsbankanum til Bankasýslunnar núna kom í ljós að það voru ýmsar (Forseti hringir.) eignatilfærslur sem virtust ekki vera í opnu ferli. Við í meiri hluta fjárlaganefndar munum kalla eftir ítarlegri upplýsingum um það.