145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:25]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í frétt frá 25. apríl 2016 kemur fram á mbl.is að Orkuveitan hafi hætt við aflandsfélag. Í fundargerð nr. 5355 frá Reykjavíkurborg kemur fram bókun meiri hlutans, sem samanstendur af Samfylkingunni, Bjartri framtíð, Vinstri grænna og Pírötum. Ég vona að ég hafi tíma til að lesa hana upp, með leyfi forseta:

„Erindi Orkuveitu Reykjavíkur er háð samþykki eigenda og er í umsagnarferli hjá fjármálaskrifstofu Reykjavíkurborgar. Erindið kemur til afgreiðslu borgarráðs þegar umsögnin liggur fyrir. Rétt er að fram komi að meiri hlutinn hefur gert skýran fyrirvara við að stofnað verði félag erlendis í þágu skattahagræðis og verður umfjöllun um þann þátt málsins hluti af meðferð þess.“

Þetta kemur fram. Ég ítreka um leið að Orkuveitan var samkvæmt þessari frétt hætt við að stofna þetta aflandsfélag.

Með hliðsjón af því að hér er um opinber gögn að ræða, þ.e. fundargerðir Reykjavíkurborgar, sér hv. þingmaður að það er munur á því að fara út í þessar æfingar — nota bene, ég vil taka fram að ég er á móti svona æfingum, ég tel ekki að menn eigi að gera þetta og ég er ekki yfir það hafinn að vera ósammála samherjum mínum í pólitík, það kemur fyrir á hverjum degi og er bara allt í lagi. En sér hv. þingmaður ekki mun á því að gera þetta í opinberum fundargerðum fyrir allra augum með umræðu og fyrir augum fjölmiðla annars vegar og hins vegar að gera þetta þannig að það séu engin gögn til staðar þar sem almenningur kemur auga á þau?