145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:29]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Umræðan um hvort það eigi hreinlega að banna aflandsfélög eða viðskipti með þau eða við þau eða hvernig það er útfært, er löng umræða sem er tæknilegs eðlis, sem ég hugsa að sé áhugaverðari en fólk heldur. Það er sjálfsagt að eiga þá umræðu. En hins vegar finnst mér vera munur á máli Orkuveitunnar annars vegar og hins vegar máli hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, sérstaklega í ljósi þess að Orkuveitan er ekki ráðherra skattamála. Í því felst reginmunur. Sömuleiðis er um að ræða ferli í tilfelli Orkuveitunnar sem á sér stað löglega og fyrir opnum tjöldum, með réttu. Hins vegar þegar kemur að einstaklingum sem gera út félög í þessum aflöndum, úti í heimi, þá veldur það tortryggni í sambandi við ætlaðan tilgang þess, hvað verði gert með þau, til hvers þau séu stofnuð og hvaða starfsemi sé stunduð þar. Það er ekki þannig þegar menn ræða slík félög í opinberum gögnum annars vegar í pólitískri opinberri umræðu, sem er aðgengileg fjölmiðlum, og hins vegar að hætt er við stofnun félags, Orkuveitan hætti við það. Ég hygg að það hafi verið vegna þess að menn sáu að umræðan vakti tortryggni.

Sumir stjórnmálamenn, alla vega sumir einstaklingar óháð því hvort þeir eru í stjórnmálum eða ekki, hlusta og taka mark á gagnrýnisröddum og reyna að skilja tortryggnina sem er til staðar. Þeir reyna að skilja á hverju hún byggist og bregðast við með þeim hætti að eyða henni.

Vandann í þessu máli sé ég fyrst og fremst í því hvernig viðbrögðin hafa verið frá upphafi. Það varðar ekki bara hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra heldur líka hvernig fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra brást við fréttunum. Menn vörðu þetta með kjafti og klóm og notuðu gífuryrði sem ég ætla ekki að endurtaka að þessu sinni.

En sér hv. þingmaður virkilega ekki mun á því hvernig er farið með það mál annars vegar og hins vegar mál (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra?