145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[14:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við ræðum um tillögu okkar Vinstri grænna um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Farið hefur verið vel yfir af fyrsta flutningsmanni, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, út á hvað tillagan gengur. Ég vil koma inn á það hvað þessi gjörningur, stofnun aflandsfélaga, og að fara með fé í skattaskjól frá ríkjum almennt og frá Íslandi, þýðir fyrir samfélögin í heild og fyrir vöxt þeirra og velferð.

Íslendingar hafa kannski ekkert áttað sig á því fyrr en nú þegar þessar uppljóstranir koma í ljós að þetta hafi verið svona grasserandi í samfélaginu, að ríkasti hluti þjóðarinnar var á fullu í að koma fé undan og leyna eignarhaldi og reyna að komast hjá því að greiða sinn hlut til samfélagsins. Þegar þetta birtist svona augljóslega, eins og þegar þær uppljóstranir komu fram að 600 Íslendingar tengjast 800 aflandsfélögum í gegnum skattaskjól og í gegnum Landsbankann sem kom í lekanum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca, þá brestur auðvitað eitthvað hjá fólki. Það sér að raunveruleikinn er sá að í þessu landi lifa tvær þjóðir, það fólk sem vinnur myrkranna á milli og greiðir sitt til samfélagsins og þeir einstaklingar og fyrirtæki sem telja sig geta verið á fyrsta farrými hér innan lands en farið síðan með auð sinn út og geti ekki hugsað sér að greiða til samfélagsins og skila því í innviðauppbyggingu. Það er auðvitað sorglegt, en þetta er nú bara veruleikinn. Skattaskjól og aflandsfélög þróast í skjóli kapítalisma og frjálshyggju. Það er veruleikinn. Þess vegna þarf auðvitað að taka á því. Það er það sem við þurfum að horfa til þegar við vinstri menn erum að byggja upp jöfnuð í samfélaginu, að ekki er hægt að líða að einhverjir taki ekki þátt í því og skjóti sér undan því í skattaskjólum. Þess vegna er baráttan gegn ójöfnuði og kapítalisma jafn mikilvæg í dag og hún var fyrir 100 árum.

Ég vil kannski taka þetta svolítið á þeim nótum vegna þess að fram undan er alþjóðlegur baráttudagur verkafólks. Þar er krafan um jöfnuð efst á blaði eins og svo oft áður. Hvernig þessi mál hafa þróast í veruleikanum er að verið er að vinna leynt og ljóst gegn jöfnuði, hvort sem er á Íslandi eða úti í hinum stóra heimi. Það að 10% eignamestu Íslendinga eigi um 70% eigna á Íslandi er auðvitað ansi sterk mynd af því hvernig þjóðirnar eru orðnar í raun og veru tvær í landinu og að sá hluti Íslendinga sé að koma fé sínu undan. Talað er um að reikna megi með að verið sé að svíkja undan skatti um 80 milljarða. En líka hafa komið fram tölur um hvað það gæti verið til viðbótar þegar reiknað er með því sem fer í skattaskjól og skilar sér ekki til landsins.

Þó að menn haldi því á lofti, eins og hv. fjármálaráðherra og fleiri, að þeir sem eru með fé í skattaskjólum greiði til Íslands skatta af þessum eignum sínum, þá segir það okkur hinum ekkert um að það sé veruleikinn. Það er ekki hægt að sannreyna það. Væri það ekki skrýtið ef allir Íslendingar gætu bara gefið upp einhverja tölu sisvona og sagt skattinum að þetta væru tekjur þeirra og ekki væri reynt að sannreyna það neitt? Ég er hrædd um að þá heyrðist einhvers staðar hljóð úr horni ef aðrir þjóðfélagsþegnar fengju að telja fram með þeim hætti.

Þegar ég tala um jöfnuð almennt, bæði á Íslandi og á milli jarðarbúa, þá á 1% jarðarbúa 50% af auðæfum heimsins. Þannig eru málin að þróast. Skattaskjól og aflandsfélög eru einn hlekkurinn í þeirri þróun. Þess vegna á lýðræðisríkið Ísland, sem og önnur ríki, að berjast gegn skattaskjólum. Menn eru kannski að vakna til vitundar núna og innan OECD er verið að beita sér gegn skattaskjólum og fimm ráðherrar stærstu ríkja innan Evrópusambandsins hafa talað þannig líka. En hvað heyrist frá okkar ráðamönnum? Hvar eru þeir í þessari umræðu? Þeir skjóta sér undan því að vera viðstaddir umræðuna eins og hún er hérna í dag, sýna ekki sóma sinn í að sitja á ráðherrabekkjum, hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það segir ansi mikla sögu um áhuga þeirra á þessum málum yfir höfuð. Það er auðvitað mikið áhyggjuefni.

En hægt er að vera stoltur af því að þjóðin hefur risið upp og sýnt reiði sína og vandlætingu í verki með því að koma hingað og mótmæla eins og hún gerði svo kröftuglega á Austurvelli 4. apríl. Afleiðingin varð sú að hæstv. forsætisráðherra hrökklaðist frá en aðrir ráðherrar sem bera alveg jafnt ábyrgð á því að vera tengdir aflandsfélögum og skattaskjólum eiga auðvitað að sjá sóma sinn í því líka að stíga til hliðar og boða til kosninga því það er það sem við þurfum til að moka flórinn, eins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins sagði svo vel, að moka þarf flórinn í íslensku samfélagi. Það eru ekki Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem moka flórinn greinilega. Það þarf einhverja aðra til að moka flórinn eftir þessa flokka því að þeir bera líka mikla ábyrgð á því hvernig íslenskt samfélag hefur verið að þróast og hvað olli hruninu. Og þessi miklu tengsl á milli viðskiptalífsins og stjórnmálanna, atvinnulífs og stjórnmálamanna, það er auðvitað eitthvað líka sem er stórhættulegt, þetta samspil og þessi hreðjatök valds og peninga á samfélaginu. Þannig vil ég ekki sjá íslenskt samfélag þróast.

Nú er að opinberast meir og meir hvað menn í atvinnulífinu og í lífeyrissjóðunum, háttsettir menn víða eins og framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins og fjöldi aðila, sem er vel farið yfir í Fréttatímanum í dag, tengjast þessu öllu þvers og kruss. Það er einhvern veginn þannig að yfirþyrmandi er að hugsa sér að við, þetta litla samfélag, Ísland, getum ekki skapað heilbrigðara samfélag en hefur verið að þróast undanfarin ár með alls konar skjólum og skattaskjólum fyrir spillingu og annan gjörning sem hefur ekki þolað dagsljósið.

Það verður auðvitað að fara að taka á þessum málum. Þessi tillaga lýtur að því að taka þetta föstum tökum. Þeir stjórnmálamenn sem treysta sér ekki í að taka svona mál eins og hér er á ferðinni, undanskot skattaskjóla og aflandsfélög, föstum tökum eiga hreinlega ekkert erindi til að gæta hagsmuna almennings. Þeim er ekki treystandi til þess ef þeir eru ekki menn til að stíga fram og horfast í augu við það að svona getum við ekki haft hlutina. Menn geta ekki verið að réttlæta þetta með einum eða öðrum hætti endalaust. Það gengur ekki upp.

Ég vil í lokin, því að tíminn flýgur hratt eins og alltaf, fara með eina vísu sem ég heyrði á dögunum í tilefni umræðu um aflandsfélög og skattaskjól. Vísan hljóðar svo, með leyfi forseta: (Forseti hringir.)

Hans var jafnan höndin treg

að hjálpa smælingjunum.

Gekk þó aldrei glæpaveg

en götuna meðfram honum.

Þetta er eftir Bjarna Gíslason. Finnst mér þessi (Forseti hringir.) vísa eiga vel við um marga í dag.