145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur fyrir ræðu hennar. Vísan í lokin kryddaði hana vel, hún var góð. Hv. þingmaður er einn af flutningsmönnum tillögunnar sem við ræðum, um skattaskjól og aflandsfélög. Hv. þingmaður talaði vítt og breitt um slíka starfsemi og óæskilegar hliðar hennar og ég get tekið undir hvert orð í þeim efnum. Eflaust má finna eitthvert pólitískt svið í þessari umræðu. Ég er ekki þar. Ég get sagt það hér og nú að ég styð tillöguna, mér finnst hún góð á margan hátt, sérstaklega markmiðin sem eru aftast í tillögunni, sem eru tvíþætt. Í fyrsta lagi er það að meta áhrifin og umfangið í skattaskjólum á samfélagið. Það væri afar gagnlegt fyrir alla aðila og samfélagið allt. Í öðru lagi er það að ná til þeirra á grundvelli þeirra gagna sem fyrri nefndin, sem nefnd er í tillögunni, mundi vinna til að ná til þeirra sem ekki hafa gefið upp tekjur af slíkri starfsemi og skotið sköttum undan.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tengt markmiðum og uppsetningu á tillögunni, af því hún fer til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Ég ætla að vísa til orða ríkisskattstjóra þar sem hann talaði um að hann hefði verið hrópandinn í eyðimörkinni og hefði í heilan áratug bent á þessa starfsemi og þann vanda sem (Forseti hringir.) tengist henni. Hvað vill hv. þingmaður segja um sein (Forseti hringir.) viðbrögð þjóðfélagsins, fjölmiðlanna og okkar hv. (Forseti hringir.) þingmanna við því?