145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:06]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur vissulega orðið viðhorfsbreyting á ekki svo mörgum árum. Við sáum auglýsingar frá Landsbankanum árið 2000 um að bankinn aðstoðaði aðila við að koma fé í aflandsfélög í skattaskjólum, við köllum það skattaskjól af því það er það, í ákveðnum löndum eins og Tortólu og fleiri löndum. Almenningur í landinu hefur ekki gert sér grein fyrir því hve mikil sogkraftur á fjármagni út úr efnahagskerfinu var þarna á ferðinni, sem kom niður á samfélagsuppbyggingu og innviðauppbyggingu. Ég nefni líka heilbrigðiskerfið. Við gætum haft það gjaldfrjálst ef við bættum í 2–3 milljörðum í það núna. Við erum að tala um skattsvik innan lands og kannski 80 milljarða og varðandi aflandsfélögin hefur talan 300 milljarðar verið nefnd, svo að þetta eru engir smápeningar. Það er verið slá íslenskt samfélag kalt með því að koma svona fram gagnvart því.

Eins og komið hefur fram voru á síðasta kjörtímabili innleiddar CFC-reglurnar sem gerðu þeim löndum sem hafa verið með fé í skattaskjóli skylt að veita upplýsingar. Það voru ýmsar reglur hertar í skattalöggjöfinni svo að menn kæmust ekki undan því að greiða skatta og eins og líka hefur verið nefnt voru skattar innan einkahlutafélaga, fjármagnstekjuskattur, hækkaðir úr 10 í 20% og ýmsar reglur voru hertar. Menn hafa því verið að vinna að því og líka að því styrkja þessi embætti. En það þyrfti að styrkja þau miklu, miklu meira en við gerum í dag því að það (Forseti hringir.) mun skila sér til baka til samfélagsins.