145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:38]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að spyrja hv. þingmann um eitt, en hann er formaður Samfylkingarinnar og stóð fyrir ráðstefnu sem fjallaði einmitt um þetta efni meðal annars, mér skilst að hún hafi verið ansi vel heppnuð og áhugaverð, en ég átti nú ekki heimangengt á hana um síðustu helgi. Mér skilst ef marka má fréttir að fram hafi komið í ræðu eins aðalræðumannsins þar að gera yrði skýran greinarmun í umræðu um aflandsfélög á félögum sem væru stofnuð í lögmætum tilgangi og öðrum. Mig langaði að vita hvort hv. þingmaður tæki undir þetta og þar með geti þá viðurkennt að einhverju leyti gildi aflandsfélaga eða félaga í svokölluðum aflöndum.

Svo er hitt sem ég velti fyrir mér, þ.e. efni þessarar þingsályktunartillögu sem mér heyrist hv. þingmaður ætla að styðja, að þar er gengið út frá því að einhverjum hópi manna verði falið að hafa uppi á öllum aflandsfélögum eða öllum félögum Íslendinga í öllum aflandslöndum. Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður hafi á því einhverja skoðun eða átti sig á því með hvaða hætti það eigi að verða svona í ljósi þess að menn hafa einmitt verið að vísa til þessara félaga að þau hafi verið stofnuð einmitt í þeim tilgangi að leyna eignarhaldi. Hefur hv. þingmaður skoðað þetta eitthvað?

Ég velti fyrir mér í tengslum við þetta, vegna þess að hv. þingmaður fer fyrir flokki sem virðist tengjast einhverjum félögum þar sem eignarhaldið virðist ekki vera ljóst, það eru félögin Fjalar og Fjölnir, ef ég man rétt, sem eru eigendur fasteignar sem Samfylkingin er í. Hefur hv. þingmaður einhverjar upplýsingar (Forseti hringir.) um þetta umfram það sem fram hafa komið í fjölmiðlum, en þær hafa eiginlega ekki verið neinar um eignarhald (Forseti hringir.) þessara félaga.