145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þekki ekki eignarhald leigusala í smáatriðum, þeir verða bara að útskýra það sjálfir og hafa gert það og birtu upplýsingar þar um. En ég hef tekið eftir því hins vegar að helsti fréttamiðillinn sem hefur fjallað um það mál, Morgunblaðið, hefur bæði seint og illa birt leiðréttingar og upplýsingar frá eigendum húsnæðisins. Kann það kannski að skýrast af því hversu mikill fótur er fyrir fréttaflutningnum að öðru leyti. Að því er hv. þingmaður síðan spyr um aðgreininguna á milli félaga sem eru rekin í lögmætum tilgangi, aflandsfélögum og öðrum ekki, þá verðum við að fallast á þá skilgreiningu ríkisskattstjóra og yfirskattanefndar að í grunninn séu bara tvær ástæður fyrir rekstri félaga í einkaeigu í aflandsfélögum, það sé annars vegar að fela eignarhald, komast undan t.d. reglum varðandi hagsmunaárekstra, hagsmunaskráningu eða eitthvað annað slíkt, eða til að forðast skattheimtu. Þetta liggur fyrir staðfest.

Síðan kunna að vera tilvik eins og hafa verið í fréttum upp á síðkastið af hálfu bæði Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur sem hafa viljað eiga félög í lágskattaríkjum til að fá betri lánakjör. Í þeim tilvikum er hvorki verið að leyna eignarhaldi né verið að forðast skattlagningu því að þau eru talin með hér í skattskilum þessara fyrirtækja. Við þær aðstæður er alveg hægt að sjá fyrir sér að mögulegt sé að vera í lágskattaríkjum. Eftir sem áður höfum við í hreyfingu jafnaðarmanna tekið móralska afstöðu gegn skattaskjólum. Næsta mál á dagskrá er tillaga okkar í Samfylkingunni um viðskiptabann gegn lágskattaríkjum til að þvinga þau til að láta af háttsemi sinni og taka þátt í alþjóðlegri stefnu um sameiginlegan skattstofn og sameiginlegan skattgrunn. Við erum bjargfastlega þeirrar skoðunar að skattasamkeppni sé af hinu illa og grafi (Forseti hringir.) undan félagslegri velferð í okkar löndum.