145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:47]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að fagna þessari umræðu í dag og þakka fyrir hana. Ég held að hún þurfi alls ekki að fara niður á það plan sem við vorum á hér áðan. Málið er stóralvarlegt og það stórt að það þarf að mæta því með þeim hætti og þeirri alvöru sem slíkum málum fylgja. Það er alveg ljóst að samfélag okkar á stórt verkefni fyrir höndum eftir að upp komst um svokölluð Panama-skjöl og allt það sem fylgdi í kjölfarið. Hér verðum við að gera skýran greinarmun á þeim sem brjóta lög og þeim sem ekki að brjóta lög. Það finnst mér vera aðalatriðið. Mér finnst það vera aðalatriðið að þeir sem geta farið með peningana sína í svokölluð skattaskjól til að koma í veg fyrir að standa við skuldbindingar sínar og greiða sinn hlut til samfélagsins sitja uppi með skömmina. Það er óþolandi að þegnum þessa lands sé mismunað með þessum hætti, að sumir verði að standa undir meiri byrði en aðrir til þess að við getum rekið hér sjúkrahús, skóla, vegakerfi o.s.frv. Ég endurtek þau orð mín sem ég hef látið falla úr þessum ræðustól. Ég skil einfaldlega ekki hvað fer í gegnum huga fólks sem hugsar svona og getur hugsað sér að láta aðra bera þyngri byrðar til að sleppa sjálft með auðveldari hætti.

Fyrir þinginu liggja sem sagt tvær þingsályktunartillögur sem verða væntanlega ræddar hér í dag. Þar er margt skynsamlegt að finna og ýmislegt sem ég mundi vilja sjá öðruvísi, eins og gengur og gerist. En við eigum að skoða allar tillögur og meta hvað er gott í þeim og hvað getur hjálpað okkur til þess í baráttunni við þetta þjóðfélagsmein eins og allar þjóðir um allan heim gera nákvæmlega þessa dagana. Því fleiri sem leggja í það púkk því betra.

Það er gott til þess að vita að fjármálaráðuneyti Íslands brást strax við 6. apríl með því að senda embættum ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra bréf þar sem óskað var eftir tillögum um hvað hægt væri að gera til að bregðast við því ástandi sem upp var komið. Núna er væntanlega búið að skila þessum tillögum og það verður mjög forvitnilegt að heyra frá fjármálayfirvöldum hér í landi hvaða tillögur þau koma með um hvernig við bregðumst við.

Það er alveg ljóst að viðhorf ríkisstjórna um allan heim er breytt eftir að Panama-skjölin svokölluðu komu fram. G20-ríkin eru búin að álykta. OECD brást hratt og örugglega við. Kallaður var saman fundur í París með fulltrúum 38 ríkja um Panama-skjölin fyrir nokkrum dögum. Sá fundur hafði að sjálfsögðu stuttan aðdraganda. Þar var verið að fjalla um aðgerðir vegna þessara uppljóstrana. Fundinn sátu fyrir Íslands hönd fulltrúi embættis ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og fulltrúi fjármálaráðuneytis. Það var mjög ánægjulegt að heyra það. Við erum á fullu í hinu alþjóðlega samstarfi vegna þess að öðruvísi verður þetta mein ekki upprætt, þ.e. nema með því að við stöndum öll saman. Mér finnst einkennilegt að hér skuli málið vera sett í flokkspólitískt samhengi. Það á ekki að þurfa í þessu máli. Það er alveg ljóst að við þingmenn sem hér vinnum og gerum það heiðarlega, stöndum öll saman í því að koma í veg fyrir að fólk brjóti lög í þessu landi.

Aðeins út frá þeirri pólitík sem ég aðhyllist, þá finnst mér nú skattbyrðin sem lögð er á fólk hér á landi alveg nógu há og mikil og það er augljóst að hún væri lægri, alveg eins og Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir, ef menn reyndu ekki í stórum stíl að koma sér undan því að axla sínar byrðar gagnvart samfélaginu, og fá frítt far, eins og ég hef kallað það. Þarna fara menn undan með peninga sem gerir það að verkum að skattprósentan hér á landi er hærri en hún þyrfti að vera, sem er mjög miður.

Eins og ég sagði áðan er baráttan gegn skattsvikum ekki möguleg nema með alþjóðlegri samvinnu, sér í lagi skiptum á upplýsingum. Þarna er þátttaka Íslands í vinnu efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD mjög þýðingarmikil. Stofnunin hefur einmitt haft forgöngu um að þróa sameiginlegan staðal þar sem aðildarríkin skuldbinda sig til að skiptast reglubundið á upplýsingum um fjármunalegar eignir og tekjur af þeim. Upplýsingaskiptin fara fram án sérstakrar beiðni af hálfu ríkjanna.

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að taka þátt í þessu samstarfi og eins og áður segir erum við á fullu og okkar stofnanir sem að þessum málum koma láta svo sannarlega sitt ekki eftir liggja í þeim efnum. Það er mjög gott að vita til þess.

Ég vil að lokum ítreka það að ég fagna þessum þingsályktunartillögum. Ég er ekkert endilega sammála öllu því sem fram í þeim kemur. Mér finnst hins vegar gott að þessi mál séu til umræðu hér á hinu háa Alþingi. Ég vil hafa sem allra mesta umræðu um þessi mál. Ég tel þau vera það stór í sniðum og það alvarleg að þau þurfi mikla umræðu. Þjóðin þarf líka að taka þátt í þeirri umræðu. Við verðum að velta hlutunum fyrir okkur og verðum líka að hafa þá þekkingu á málinu að gera greinarmun á því sem er í lagi og því sem er ekki í lagi. En oft finnst mér eins og það liggi ekki alveg ljóst fyrir og sjálf tel ég mig oft skorta upplýsingar um það hvernig leikreglur við viljum hafa. Ég vil treysta á Alþingi og aðilum í þessum málaflokkum til þess að koma þar fram með leiðbeiningar til okkar þingmanna.