145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[15:59]
Horfa

Flm. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég er á svipuðum slóðum og hv. þm. Kristján Möller. Eðli málsins samkvæmt leggur maður við hlustir þegar maður heyrir jákvæða tóna úr hópi stjórnarþingmanna í garð þessarar tillögu. Ég hafði þegar tekið eftir því að hv. þm. Willum Þór Þórsson hafði einfaldlega lýst yfir stuðningi við tillöguna, hann gerði það hér í ræðu áðan, og hv. þm. Frosti Sigurjónsson sagði margt jákvætt vera í tillögunni. Ég er einfaldlega að reyna að átta mig á því hvort það sé kannski almennur stuðningur við málið af því að ég hef heyrt í þingmönnum stjórnarandstöðuflokkanna sem telja að málið sé gott og mikilvægt.

Hv. þm. Elín Hirst talar um að þarna séu jákvæðir punktar, eins og hún orðar það, og þó að tillagan sé nokkuð ítarlega hugsuð langar mig að biðja hv. þingmann að deila því með okkur, af því að hún talar um að hlutverk og verkefni rannsóknarnefndarinnar og rannsóknarhópsins séu verkefni sem hún telur fulla ástæðu til að ráðast í — ef ég skil hana rétt, hún leiðréttir mig annars — hvort það sé eitthvað í tillögunni sem hún telur að megi annaðhvort missa sín eða mætti breyta með einhverju móti þannig að við getum byrjað þetta samtal. Eins og við vitum sem erum í þinginu er auðvitað tilhneigingin sú að ef mál fer til nefndar og er borið uppi af stjórnarandstöðunni hafi það tilhneigingu til þess að verða afvelta þar ef svo má að orði komast. Um leið og við heyrum jákvæða tóna höfum við auðvitað ástæðu til að vænta þess að eitthvað sé á bak við það og að við getum þá tekið málið lengra.