145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:01]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrri hluta þingsályktunartillögu Vinstri grænna um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum segir að nefndin skuli skrá öll aflandsfélög, hvar sem er í heiminum, sem tengjast eða hafa tengst íslenskum aðilum. Gefin verði út í lok nefndastarfsins sérstök aflandsfélagaskrá yfir alla þá sem í hlut eiga og fram komi nöfn hlutaðeigandi félaga og einstaklinga og upplýsingar um staðsetningu skattaskjóla. Rannsóknarnefndin miðli upplýsingum og niðurstöðum til skattyfirvalda og annarra yfirvalda eftir því sem efni standa til meðan á starfi hennar stendur.

Ég velti því fyrir mér hvaða ramma menn eru að setja hér vegna þess að ég tel mjög mikilvægt að við tökum á því sem er ólöglegt. Við erum ekki að tala um að það til dæmis að fjárfesta í útlöndum sé endilega eitthvað slæmt. Ég vil ekki sjá að Íslendingar fari frá Íslandi í stórum stíl vegna þess að þeir telji að þeir hafi ekki frelsi til að stunda heiðarleg fjármálaviðskipti, ekki bara innan lands heldur líka erlendis. Án þess að hafa kafað djúpt ofan í finnst mér fyrri hluti þingsályktunartillögunnar það veikasta sem fram kemur í henni. Hins vegar finnst mér seinni hlutinn nokkuð sem mig langar til að skoða og eins sú tillaga sem við ræðum hér á eftir um viðskiptaþvinganir gagnvart skattaskjólsríkjum þannig að ég segi það bara alveg eins og það kemur frá hjartanu.