145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:05]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég á mjög erfitt með að sjá einhvern mæla bót svokölluðum skattaskjólum þar sem verið er að leyna peningum til þess að komast undan því að borga það sem fólki ber að borga. Slíku fyrirkomulagi er ekki hægt að mæla bót. Hvað það snertir er ég náttúrlega á nákvæmlega sömu línu og OECD hefur lýst yfir. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það.

En alveg eins og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir sagði áðan vil ég, eins og ég segi, að við göngum samt um þetta mál af varfærni og missum okkur ekki í einhvern ofsa. Það þarf að gera þetta eins vel og vandlega og hægt er þannig að hið sanna komi sannarlega í ljós. Gegnsæi er grundvallaratriðið til að hér á landi geti stjórnmál virkað eins og þau eiga að virka og gert það gagn sem þau eiga að gera.