145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:07]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum, mjög merkileg og góð tillaga og ég tek undir það sem margir hafa sagt að þetta er stórt og mikið mál. Ég vil segja í upphafi máls míns að Alþingi getur ekki lokið störfum, sama hvenær það verður á þessu ári og á þessu kjörtímabili, án þess að slík tillaga verði samþykkt. Allt hefst þetta með því að Panama-skjölin voru birt. Miklar upplýsingar komu fram þar og margt hefur gerst í framhaldi af því. Þessi tillaga fjallar um að fram fari rannsókn á fjölda og starfsemi félaga sem tengjast íslenskum aðilum, einstaklingum og lögaðilum, og eru í skattaskjólum sem skilgreind hafa verið af Efnahags- og framfarastofnun og íslenskum stjórnvöldum og að notuð verði lög um rannsóknarnefndir Alþingis til að fara í þá vinnu. Ég minni á að hæstv. forseti Alþingis mælti nýlega fyrir breytingu á þeim lögum frá forsætisnefnd. Ég minni líka á að á Alþingi var samþykkt að fara í rannsókn á einkavæðingu bankanna 2003 þó svo að sú rannsókn hafi ekki hafist og peningaskorti kennt um. Vissulega styðja þessar miklu upplýsingar og umræðan sem fór fram í framhaldinu af Panama-skjölunum það að nauðsynlegt sé að fara í slíka vinnu.

Það hefur margt gerst síðan Panama-skjölin voru birt, heldur betur, og það dregið dilk á eftir sér. Mér finnst mjög merkilegt við þessa umræðu hversu fáir stjórnarliðar taka þátt í henni og eru viðstaddir hana, ef frá eru taldir einn sjálfstæðismaður sem er búinn að tala og annar sem á það eftir og einn framsóknarmaður sem kom í stutt andsvar, hv. þm. Frosti Sigurjónsson, sem lýsti yfir stuðningi við tillöguna, ekki mátti heyra annað. Hann er formaður efnahags- og viðskiptanefndar og ber að þakka fyrir hreinskilni hans. Svo má nefna það sem komið hefur fram hjá hv. þm. Elínu Hirst og að mér skilst hjá hv. þm. Willum Þór Þórssyni, sem ég heyrði því miður ekki í því að ég þurfti að bregða mér aðeins úr húsi.

Því fagna ég og vil segja eins og ég sagði áðan að ég trúi því ekki að allir stjórnarliðar láti binda sig þannig á klafa að þeir komi í veg fyrir að Alþingi álykti um þessi skjöl og upplýsingar án þess að bregðast við þeim, vegna þess að hér hefur heldur betur margt komið í ljós. Ég minni á að í dag var haldinn fundur í háskólanum þar sem meðal annars skattrannsóknarstjóri lýsti því sem fór fram. Í einum fjölmiðlanna í dag segir Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri, sem keypti gögn á síðasta ári er varða meint undanskot Íslendinga, að um sé að ræða 600 félög sem tengi um 400 einstaklinga, að tæplega 400 félög sé ekki hægt að tengja við nöfn tiltekinna einstaklinga. Það kemur líka fram að flókið ferli sé sett í gang og við höfum séð það til að mynda í Kastljósi að allt er þetta vafalaust gert til að villa sýn. En í fréttinni stendur, með leyfi forseta:

„„Þetta er stærsti upplýsingagrunnur um svona málefni sem skattyfirvöld hafa nokkru sinni komist yfir,“ sagði Bryndís. Hins vegar sé engar fjárhagsupplýsingar að finna í gögnunum þannig að verkefni skattrannsóknarstjóra sé að reyna að afla þeirra upplýsinga.“

Það kom fram á fundi skattrannsóknarstjóra með þingflokkum minni hlutans að í þessum skattaskjólum er engin skylda að leggja fram ársreikning eða framtöl. Þarna er komin aðalástæðan, fyrir utan að fela peninga, fyrir því að menn leita í skattaskjól. Jafnvel þótt fyrirtæki séu skráð í löndum sem eru í Evrópusambandinu eða tilheyra hinu Evrópska efnahagssvæði, eins og Lúxemborg, þá stofna menn félög á furðulegum eyjum til að fela slóð.

Það kom fram við hvaða erfiðleika skattyfirvöld eiga að etja í því sambandi og var tekið dæmi. Það getur komið fram í framtali, ef til vill í CFC-reglunum sem voru lögleiddar á síðasta kjörtímabili af þáverandi ríkisstjórn, að greiddur sé t.d. 100 millj. kr. sérfræðikostnaður. En það sem er ansi merkilegt og varpar ljósi á hvernig þetta er og við hvað skattyfirvöld eiga að etja er að ef skattyfirvöld vilja fá sundurliðun á því hvernig þessi sérfræðikostnaður var greiddur er ekki hægt að fá þær upplýsingar. Það er skýringin á því hvernig þetta er gert.

Virðulegi forseti. Í þingsályktunartillögunni gefst okkur ekki tími til að ræða öll þau mál sem við vildum ræða vegna þess að við höfum aðeins tíu mínútur við fyrri umr. Ég ætla ekki að lengja umræðuna um meira en mínar tíu mínútur vegna þess að ég tel afar brýnt að málið farið til nefndar, að nefndin sendi það út til umsagnar og taki til meðferðar og skili tillögu til þingsins til síðari umr. áður en þingstörfum lýkur.

Þá kem ég að því hvers vegna þetta er gert. Það hefur komið fram hversu miklar upphæðir þetta eru og hvað við verðum af miklum skatttekjum vegna þessa. Ég hugsa aftur til páska 2008, hálfu ári fyrir hrun. Rétt fyrir páska varð töluverð gengislækkun hér á landi, 7–10% ef ég man rétt. Það sem mig langar að vita er hvað gerðist þá. Þá voru ekki fjármagnshöft. Voru það óeðlilega miklir eða mjög miklir fjármagnsflutningar úr landi sem gerðu það að verkum að gengið hríðféll á tveimur, þremur dögum? Ég man það vel, virðulegi forseti, hvað mönnum létti við það að það voru að koma páskar og allir bankar og bankakerfi lokaði. Ég man líka að í aðdraganda þessa fóru fram umræður um hvort hægt væri að sameina Landsbankann og Glitni. Ef til vill var farið að glitta í byrjun hrunsins sem varð í október 2008. En hvað gerist þarna? Að mínu mati hefur aldrei komið fram almennileg skýring á því sem gerðist tveimur dögum fyrir páska árið 2008.

Ég vil svo segja, bæði út frá því sem kom fram á fundinum sem ég vitnaði til með skattrannsóknarstjóra og vegna æpandi þagnar stjórnarmeirihlutans, að mér finnst að ráðherrar ættu að sitja þessa umræðu, alla vega í byrjun þegar málið er flutt, vegna þess að við þingmenn minni hlutans sitjum hér þegar ráðherrar flytja sín mál. Mér hefur alltaf fundist að það ætti að vera gagnkvæmt. Þetta mál er miklu stærra en ýmsar aðrar þingsályktunartillögur og mér finnst mjög miður að ráðherrarnir séu ekki viðstaddir og taki ekki þátt í umræðunni.

Ég tek eftir því að það eru að berast fréttir af því að ríkisstjórnin hafi ákveðið í morgun að skipa nefnd, fulltrúa ráðuneyta og skattembættanna, til að fara í gegnum þessa vinnu. Ég tek líka eftir því að stjórnarandstöðunni er ekki boðin aðild að þeim vinnuhópi. Ég hefði viljað sjá þverpólitíska vinnu sem yrði unnin í framhaldi af því og ég vil taka því þannig að menn vilji gefa í og klára þetta í hvelli. En rannsóknarnefndin sem slík, sem lögð er til, á auðvitað fullan rétt á sér vegna þess að það þarf að fara í svo margt annað.

Ég vek athygli á því að í Panama-skjölunum sem hafa verið birt virðist mér það alltaf vera dálítið tengt starfsemi Landsbankans í Lúxemborg. Þá spyr ég mig: Hvað gerðu hinir bankarnir? Tóku þeir þátt í þessu? Ég veit það ekki, en þetta eru áleitnar spurningar.

Að lokum vil ég segja að svona rannsóknarnefnd þarf að fara í gegnum atriði sem mér finnst ákaflega mikilvægt að við Íslendingar fáum að vita um. Þau eru hvort íslenskir aðilar sem hafa verið með peninga sína í skattaskjólum, gjaldeyrishöftum frá hruni, og jafnvel stundað viðskipti í hinum föllnu bönkum með því að kaupa þar kröfur á hrakvirði séu þá kröfuhafar í þrotabúin. Ef til vill verður erfitt að komast að því vegna þess að mér er sagt að menn geti keypt þar í sjóðum og öðru slíku, t.d. í hinni stóru Ameríku, til að fara í gegnum þetta. En spurningin er áleitin. Það hefur oft komið upp í huga minn hvort við þingmenn getum beitt okkur fyrir því með fyrirspurnum um þá banka sem við eigum mest í og (Forseti hringir.) ber því að veita upplýsingar um, hvort hægt sé að draga fram þær upplýsingar sem þarna eru. Mér er sagt að það sé mjög erfitt.

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Ég vil segja að lokum að ég tel ákaflega mikilvægt að þessi þingsályktunartillaga fái fljóta og góða meðferð í nefnd og komi sem fyrst (Forseti hringir.) aftur í þingsal til síðari umræðu.