145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held nefnilega að mjög mikilvægt sé að það sé einmitt á þessum vettvangi, á Alþingi, þar sem kjörnir fulltrúar þjóðarinnar sitja, að þar sé tekið á þessum málum. Við sáum það auðvitað öll hér fyrir utan á Austurvelli þegar fjölmennustu mótmæli Íslandssögunnar voru því að þar var fólk sem ég held að hafi verið algjörlega misboðið eftir að hafa séð þátt þar sem fjallað var um tengsl fyrrverandi forsætisráðherra við aflandsfélög sem og annarra hæstv. ráðherra sem sitja enn í ríkisstjórn. Það er einmitt þess vegna sem ég held að það sé svo mikilvægt vegna þess að trúnaðarbrestur varð. Traust þjóðarinnar á ráðamönnum minnkaði alveg gríðarlega. Ég held að það sé alveg rosalega mikilvægt að til að endurvekja traust þjóðarinnar til kjörinna fulltrúa þá séu nákvæmlega hér á vettvangi Alþingis settar í gang rannsóknir á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum. Það er örugglega fínt að hæstv. ríkisstjórn geri eitthvað líka í málunum. Mín skoðun er í það minnsta sú að sé hæstv. ráðherrum alvara með því að þeir vilji gera eitthvað alvöru sem bítur til þess að rannsaka skattundanskot og skattaskjól, þá sé það á þessum vettvangi sem þeir eiga að tala fyrir því og koma að þeirri vinnu að setja rannsókn í gang.