145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:24]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þær upplýsingar um ákvörðun ríkisstjórnarinnar í morgun um að skipa starfshóp frá þessum ráðuneytum, ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og tollstjóra eru góðar og góðra gjalda verðar, en eins og ég sagði áðan hefði verið betra að fulltrúar stjórnmálaflokka væru líka, þótt ekki væri nema til að fylgjast með og leggja inn í umræðuna og koma kannski í veg fyrir tortryggni. Það má enginn misskilja mig á þann veg að skipun ríkisstjórnarinnar, þetta viðbragð hennar í morgun, dragi úr því að þessa þingsályktunartillögu þurfi að samþykkja um rannsóknarnefnd, alls ekki. Ég held að það sé mikilvægt og vitna í það sem ég sagði áðan um samþykkt Alþingis frá síðasta kjörtímabili um að rannsaka einkavæðingu bankanna árið 2003 sem er eftir, og að þessi Panama-skjöl og upplýsingar sem við fáum um hvernig unnið var af bönkum og hefur verið lesið upp hér í dag, m.a. af hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni úr auglýsingum Landsbankans frá árinu 2000, þurfi að rannsaka miklu meira. Eitt er að rannsaka til að fara í gegnum þetta eins og ég sagði áðan, en voru svona óeðlilega miklir fjármagnsflutningar úr landi í aðdraganda páska 2008 sem hreyfði svona mikið við gengi krónunnar eða hvað var það annað? Allt þetta þarf að athuga vegna þess að hluti af þessari rannsókn, hvort sem um rannsóknarnefnd eða starfshóp er að ræða, er til að koma í veg fyrir að þetta geti gerst. Það er mjög nauðsynlegt og ég tala nú ekki um meðan við erum með okkar litlu krónu í þessu litla hagkerfi þar sem einstakar aðgerðir manna geta verið mjög afdrifaríkar. Það eru stórar ákvarðanir sem geta verið, má ég kalla það „fiff“ við íslensku krónuna, og eru í raun og veru þannig í dag að þær fara fram á takkaborðinu og þegar ýtt er á takkann „enter“ þá hefur það verið gert sem getur hreyft svona við. Þannig að við erum svo viðkvæm, (Forseti hringir.) líka vegna þess hve hagkerfið er lítið.