145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:26]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með öðrum hv. þingmönnum sem fagna umræðunni um þetta mál, þ.e. um aflandsfélög og tengsl aflandsfélaga við Íslendinga, einkum og sér í lagi með vísan til mögulegra skattundanskota. Þetta er afar umfangsmikið mál og sjálfsagt að það sé rætt í þingsölum og jafnvel meira en einn dag eins og nú er kannski fyrirhugað, fleiri en einn og jafnvel fleiri en tvo daga. Ég sakna hins vegar, verð ég að segja, efnislegrar umræðu um fyrirbærið aflandsfélög, svokallaðar skattaparadísir eða það sem menn hafa oft og tíðum kallað félög á aflandseyjum.

Virðulegur forseti. Það er enginn ágreiningur í þessum þingsal frekar en úti í þjóðfélaginu um að skattundanskot, sama með hvaða hætti þau eru stunduð, eru algjörlega ólíðandi. Leita á allra leiða til þess að uppræta þau. Við vitum vel að skattundanskot hafa farið fram með þeim hætti að menn stofna félög í löndum eða í lögsögu þar sem hægt er að fela fé sitt og þar af leiðandi mögulega að fela tekjur sínar.

Aflandsfélög eru hins vegar ekki öll í ólögmætum tilgangi. Það liggur fyrir og ég sakna þess að enginn þingmaður hefur léð máls á því eða viðurkennt það sem ég tel þó að sé staðreynd og blasi við okkur hér á landi sem annars staðar. Ég rifja til dæmis upp skýrslu, eina af mörgum skattsvikaskýrslum svokölluðum, skýrslu frá 2003 og 2004 þar sem skattyfirvöld, sem skipuðu starfshóp um skattsvikaskýrsluna, tóku einmitt skýrt fram að hinar svokölluðu aflandseyjar eða aflandsfélög gætu átt rétt á sér.

Ég rek hér nokkur dæmi sem mér detta í hug um lögmæt aflandsfélög og málefnalegar ástæður fyrir þeim. Hópur manna sem býr hist og her um heiminn getur átt sameiginlega hagsmuni, t.d. kröfur á einn aðila eða fleiri. Það getur verið heppilegt að reka innheimtu slíkra krafna í einum sjóði fremur en að hver og einn innheimti þær með sínum hætti. Þá getur komið til greina og verið málefnalegt að menn komi slíkum kröfum fyrir í einum sjóði sem safni saman fé eða innheimtukröfum og dreifi áfram til eigenda sinna. Þá getur skipt máli að menn verði ekki af lögmætum réttindum sínum fyrir tilstuðlan tvísköttunar sem oft getur átt við. Það er meðal annars þess vegna sem menn hafa stundum sett slíka sjóði á þessi lágskattasvæði, látið innheimta kröfur sínar þangað, félagið dreifir því síðan áfram inn í þá heimilisfesti sem kröfuhafarnir búa í, hver á sínum stað, og þar greiða menn sína skatta. Þetta er eitt dæmi.

Annað dæmi hefur verið í fréttum hér. Það er dæmi af ríkisfyrirtæki, Landsvirkjun, sem á árinu 2003 stofnaði sitt eigið tryggingafélag í þeim tilgangi að tryggja eigur sínar og verja hagsmuni sína hér á landi; tók þá ákvörðun árið 2003 að stofna þetta félag. Fyrir valinu varð Bermúda sem telst til lágskattaríkja. Ég man ekki betur en að í stjórn Landsvirkjunar á þeim tíma hafi einmitt setið einn hv. þingmaður sem enn situr hér á þingi, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, og tók þátt í því að stofna þetta félag á Bermúda á sínum tíma. Það voru algjörlega málefnalegar ástæður sem lágu þar að baki og allt lögmætt. Það var meira að segja borið undir skattyfirvöld á þeim tíma sem gáfu það álit sitt að þetta væri ekki óeðlilegt og blessuðu þann gjörning. Þetta eru nú nokkur dæmi um svona lögmæta sjóði.

Svo er það líka lögmætt sjónarmið að menn velji þau ríki þar sem skattarnir eru lágir. Öll ríki eru í samkeppni um hagkvæmt rekstrarumhverfi. Með hinum svokölluðu CFC-reglum, sem eru margumræddar hér, er hins vegar tekið á því að menn séu ekki að koma sér undan sköttum hér á landi.

Um er að ræða ólögmæt aflandsfélög þegar menn stofna félög gagngert til þess að skjóta eigum sínum — ekki endilega undan sköttum, ég er ekki svo viss um það að það sé helsti tilgangur manna þegar menn stofna félög í þessum ólögmæta tilgangi, heldur eru menn miklu frekar að koma eignum undan frá kröfuhöfum, fela illa fengið fé og þar fram eftir götunum. Ég er ekki endilega viss um að menn séu að forðast skattana sem slíka. Það kann þó auðvitað að vera í einhverjum tilvikum. Það er alveg ljóst að það verður aldrei réttlætanlegt og menn eiga að grípa til allra tiltækra ráða til þess að ráðast gegn því.

Mér þykir það því miður að umræðan í dag hefur einvörðungu hverfst um þessi skattundanskot. Reynt er að gera það tortryggilegt að menn leiti í hagfelldara skattumhverfi.

Ég spyr líka: Hvað gerum við hér á Íslandi í þessum efnum? Erum við ekki að reyna að laða til okkar útlendinga með sérstökum ívilnunarsamningum, fjárfestingasamningum, um lægri skatta, undanþágur frá tilteknum sköttum og þar fram eftir götunum? Á síðasta kjörtímabili náði sú ríkisstjórn sem þá var við völd að gera marga slíka samninga. Þar fóru einmitt fremstir í flokki þeir sem hafa talað hér í dag mjög gegn alls kyns skattundanskotum eða skattasniðgöngu, þá voru þeir í forustu fyrir gerð slíkra ívilnunarsamninga.

Virðulegi forseti. Svo að ég víki að efni þingsályktunartillögunnar, svona formlega. Það má margt læra af því að kortleggja umfang aðkomu Íslendinga, einstaklinga og fyrirtækja, að aflandsfélögum og greina ástæðu þess að menn fara þá leið að stofna hin svokölluðu aflandsfélög. Að því leyti tek ég undir markmið þingsályktunartillögunnar. En ég vil líka nefna að hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur lagt sig sérstaklega í líma við að koma til móts við þessi sjónarmið. Á undanförnum dögum höfum við fengið nokkuð yfirgripsmikla umfjöllun frá skattaðilum, hagsmunaaðilum, fagaðilum á þessu sviði, um nákvæmlega þetta atriði, um aflandsfélögin og aðkomu Íslendinga að þeim. Ekki er útilokað að nefndin gefi út um þetta sérstaka skýrslu. Þetta er enn til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er því ekki rétt að halda því fram við þessa umræðu í þingsal að ekki sé verið að gera neitt, að hvorki stjórnvöld né þingmenn láti sig málið varða. Það er öðru nær.

Nýlega bárust fréttir af því, í dag eða í morgun, að ríkisstjórnin hefði skipað starfshóp til að kanna þetta umfang. Hér var reynt að gera það tortryggilegt að í henni sætu ekki pólitískir fulltrúar. Eðli þessara mála varðar svo mikla hagsmuni, bæði fyrir einstaklinga og ríkið, að ég tel að minnsta kosti rétt, og fagna því, að starfshópur sem nú hefur verið skipaður sé skipaður fagaðilum á þessu sviði, þeim eftirlitsaðilum sem eru til þess bærir að fjalla um þessi mál og þekkja þessi mál. Ég tel rétt að við hvetjum þennan starfshóp til góðra verka og að við hér á Alþingi höldum áfram að ræða þessi mál og eftir atvikum í viðkomandi nefndum. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sú vinna sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd hefur verið í undanfarið geti leitt af sér nokkuð gott yfirlit um starfsemi Íslendinga í aflandsfélögum.