145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:37]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum um skattaskjól og aflandsfélög. Ég fagna þessari umræðu sem kemur til af þeirri þingsályktunartillögu sem liggur fyrir og snýr að rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

Fyrst vil ég segja, virðulegi forseti, að ég skynja ekki annað af umræðunni hér undanfarið en að skattundanskot eru auðvitað ekki umborin eða liðin. Við ræðum tillöguna núna í fyrri umr. og þá ætla ég að halda mig við efni tillögunnar, alla vega fyrst í ræðunni, og ræða hana út frá þeim markmiðum sem koma þar fram. Þau snúa að, og koma fram aftast í tillögunni, umfangi og áhrifum starfsemi í skattaskjólum á íslenskt samfélag og að sama skapi viðleitni til að koma lögum yfir þá sem hafa með rangindum haft fé af samborgurum sínum og samfélaginu öllu. Þannig eru markmið tillögunnar í raun og veru tvíþætt. Í fyrsta lagi að meta umfangið og áhrif þess umfangs á íslenskt samfélag. Í öðru lagi að leitast við að ná til þeirra sem hafa nýtt sér slík skattaskjól og ekki gefið upp tekjur af slíkri starfsemi. Mikilvægt er að hafa það í huga. Ég get því heils hugar tekið undir með öllum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls og stutt markmið þessarar tillögu. Mjög margt gott er í þingsályktunartillögunni, sérstaklega þessi markmið.

Síðan er lagt upp með áætlun og leiðir til þess að ná þeim markmiðum. Það er jafnframt tvíþætt og snýr að markmiðunum eins og ég les tillöguna. Í fyrsta lagi að láta fara fram rannsókn á fjölda og starfsemi fyrirtækja og félaga sem tengjast íslenskum aðilum, lögaðilum og einstaklingum. Til þeirra verka verði skipuð rannsóknarnefnd í samræmi við lög sem um slíkar nefndir gilda. Nefndin skuli þannig vinna að því að fyrra markmiði tillögunnar verði náð, þ.e. að meta umfangið og áhrifin á íslenskt samfélag. Ég held, ég held ekkert um það, ég er alveg sannfærður um að það væri mjög gagnlegt og við hæfi í ljósi þess gagnaleka og umræðunnar — gagnaleka, þá er ég að vísa í Panama-skjölin og umræðurnar, ekki bara á Íslandi heldur alþjóðlega. Það er ágætlega farið yfir það í þingsályktunartillögunni hvernig sú rannsóknarnefnd verður skipuð og kröfur um þekkingu, en ég held að það sé kannski á færi hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að fara yfir það hvaða heimildir, úrræði og möguleika nefndin hafi.

Það hefur auðvitað ýmis vinna farið fram sem hægt er að nýta, en ég held að það verði að ræðast í nefndinni hvernig hægt er að vinna úr því. Ég er mjög ánægður með þá fyrirætlan í tillögunni að nefndinni er skipaður mjög skýr tímarammi og ætlað að skila áfangaskýrslu. Mér finnst í ljósi starfa fyrri rannsóknarnefnda, sem hafa reyndar skilað ágætisskýrslum, þetta vera svona vísbending um það að við höfum sitthvað lært af því.

Þetta er í raun og veru tvíþætt leið og seinni leiðin í þessari fyrirætlan er síðan að hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra er ætlað að stofna sérstakan rannsóknarhóp. Ég les það þannig úr tillögunni að það snúi að seinna markmiðinu, að rannsóknarhópurinn geti þá nýtt sér þau gögn sem verða til við að meta umfangið og ná utan um þá starfsemi sem tengist íslenskum félögum og geti þá komið með tillögur að frekari úrbótum.

Ég verð því að segja að ég styð heils hugar markmið tillögunnar. Ég held að leiðirnar til þess að ná þeim markmiðum séu mjög röklegar og alveg vísar til þess að ná markmiðunum, gott innlegg í umræðuna, og það sem þó þegar hefur verið gert og það sem er að gerast á vettvangi Alþingis í dag, m.a. hjá hv. efnahags- og viðskiptanefnd sem hefur þegar sýnt frumkvæði og fengið á opna fundi skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Þar komu fram mjög gagnlegar ábendingar, m.a. í formi minnisblaða, sem fylgt var eftir á þeim fundum, og tillögur að úrbótum.

Það er auðvitað hárrétt sem kemur fram í greinargerð tillögunnar að það háttalag sem við erum að ræða þegar aflandsfélög eru nýtt í þeim tilgangi að koma fjármunum undan og svíkja þannig samborgara og samfélag er ekki sem betur fer algjör viðhorfsbreyting gagnvart slíkri háttsemi vegna þess að byrðarnar verða þá meiri á þá sem hér skila sköttum til samfélagsins til að standa undir grunnstoðunum, grunnþjónustunni og velferðinni.

Ég verð þó að segja að við verðum að gera greinarmun á þeim félögum sem kunna á rökum og forsendum að hafa hag af því að stofna félög erlendis og gefa allt upp og allt innan ramma laga og skrá allar upplýsingar og skila sköttum eins og félögum ber að gera hér á landi og í samræmi við lög. Það kann að vera og ég les anda tillögunnar þannig að með því að taka saman þetta umfang og meta það þá sé hægt að gera nákvæmlega þennan greinarmun þannig að það sé öllum til hagsbóta. Í tilefni af ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen áðan, sem kom inn á það að gera þennan greinarmun, þá les ég einmitt anda tillögunnar þannig og tel það svona mæla með því, og tillagan fer auðvitað til nefndar og frekari úrvinnslu. En ég styð heils hugar markmið tillögunnar og vil ítreka það, virðulegi forseti, ekkert síður til þess að við náum einmitt að meta þetta.

Ég hef farið yfir það sem hefur verið gert hér í þinginu. Síðan hefur auðvitað ýmislegt verið gert á vettvangi skattyfirvalda. Talað hefur verið um CFC-reglur, sem þó hefur kannski ekki mikið reynt á en er þó vissulega mikilvægt skref sem snýr að skráningu slíkra félaga. Komið hefur verið inn á upplýsingaskiptasamninga bæði á vettvangi OECD og Norðurlandanna og tvíhliða samninga þar á milli. Hér hefur jafnframt komið fram að í dag skipaði ríkisstjórnin á fundi sínum í morgun starfshóp sem er ætlað að fara yfir skattundanskot og starfsemi í skattaskjólum. Það á skoðast sem aðgerðaáætlun íslenskra yfirvalda gegn skattundanskotum. Það er vel, þannig að það eru allir á vaktinni. Það hlýtur síðan að vera á vettvangi nefnda að vinna úr því, því að hér er hafin vinna eins og ég fór yfir í hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þessi ágæta tillaga fer til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar. Hér er kominn í gang aðgerðahópur. Þetta er auðvitað svolítið mikið og á nokkrum vígstöðvum. Það er því mikilvægt að nefndirnar skoði vinnuna sem er í gangi og reyni að samhæfa aðgerðir þannig að við getum verið með markvissar úrbætur á þessu sviði.

Ég get ekki annað en ítrekað það að ég styð tillöguna og sérstaklega markmið hennar. Mér finnst þingsályktunartillagan verklegt innlegg í þær aðgerðir sem þegar hefur verið farið í. Ég ætla jafnframt að segja að mér finnst hafa verið ágætisjafnvægi í þessari umræðu og þegar á hefur liðið umræðuna hafi hún sífellt orðið málefnalegri.