145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir jákvæð viðbrögð við ræðu minni. Það er gott að heyra að við séum sammála um meginmarkmið tillögunnar og uppleggið í henni. Ég hlustaði á ræðu hv. þingmanns hér áðan og er honum hjartanlega sammála um inntakið í tillögunni. Við getum treyst því að það er fullt af jákvæðum og góðum framsóknarmönnum, en ég hef ekki gert almenna könnun á því hver stuðningurinn er við tillöguna sem slíka í flokknum. Ég geri ráð fyrir því að hann sé á jákvæðum nótum. Mér finnst tillagan vel uppbyggð og samræmi er á milli aðgerða og markmiða. Ég les tillöguna þannig. Ég hef svo sem ekki heyrt það á neinum þeirra sem tekið hafa til máls í dag um tillöguna að þeir geti annað en stutt markmiðin og sjái ekkert því til fyrirstöðu að hún gangi til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar til frekari umræðu.

Ég held að það sé mjög gagnlegt að draga það — mér finnst andinn í tillögunni þannig — upp á yfirborðið hvert umfangið er, hver áhrifin eru á íslenskt samfélag og fara betur yfir aðferðir og leiðir og heimildir þeirra nefnda sem hér eru ræddar. Ég trúi því að allir hv. þingmenn, hvar í flokki sem þeir standa, styðji þessa ágætu og góðu tillögu.