145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:51]
Horfa

Hjálmar Bogi Hafliðason (F):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna mjög mikið en fagna að hún sé fram komin, sérstaklega markmiðið um ályktanirnar, þ.e. að upplýsa umfang og áhrif skattaskjólastarfsemi á íslenskt samfélag. Um leið og ég segi það finnst mér við hins vegar ekki mega gleyma því að í grunninn á þetta mál sér miklu stærri og dýpri rætur en nokkurn tímann það sem við höfum hér á Íslandi og almennt í vestrænum samfélögum. Grunnurinn að samfélagi okkar, velferð þess, byggir því miður á eymd annarra. Ég ætla að leyfa mér að nefna nokkur dæmi sem ég hef sjálfur komið að í tengslum við verkefni sem ég hef unnið. Þar má nefna arðrán heilu þjóðanna í Afríku. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon fór mikinn í sinni ræðu og hún endaði reyndar ekki vel, en margt var gott sem þar kom fram.

Ég ætla að nefna dæmi um arðrán Kínverja á demantsnámum í Namibíu þar sem peningar eru faldir fyrir nýríka Kínverja í Kína í gegnum skattaskjól. Af hverju segja ég þetta hér á litla Íslandi? Jú, þetta á sér í rauninni miklu dýpri, stærri og meiri rætur en það sem við ræðum hér. Ég vitna í málsgrein á síðu 2, næstneðstu málsgreinina, ég vil fá að lesa hana hér upp, með leyfi forseta:

„Skattaskjól eru til þess fallin að viðhalda, auka misskiptingu auðs í heiminum“ — það er alveg rétt — „og í þeim er varðveittur ágóðinn af ýmis konar ólögmætri starfsemi sem bitnar á almenningi, svo sem vopna- og eiturlyfjasölu, vændi og mansali.“

Ég ætla aðeins að fá að staldra við hér. Nú er maður kannski kominn út fyrir efnið þegar við tölum um Ísland, en ég ætla samt aðeins að leyfa mér að fara út fyrir efnið því að vandinn er að við byggjum velferð okkar á eymd annarra, því miður. Mansal er sú ólöglega atvinnugrein sem vaxið hefur hvað hraðast, þannig að ég held að við þurfum að taka á því hér þó svo að þessi þingsályktunartillaga sé auðvitað til komin vegna þess umróts sem verið hefur hér síðustu vikur. En ég fagna þessari tillögu og styð markmið hennar sérstaklega og segi, eins og hv. þingmaður hér á undan mér, Willum Þór Þórsson, að menn ættu um leið að taka umræðu um þankagang okkar sem förum með löggjafarvaldið. Ég held að flestallir séu sammála um að svona starfsemi er óeðlileg í grunninn. Ég held að flestallir séu sammála um að það sé ekki gott mál.

Ég fagna því að tillagan sé fram komin og að maður hafi tækifæri til þess að styðja þetta mál.