145. löggjafarþing — 104. fundur,  29. apr. 2016.

rannsókn á aflandsfélögum Íslendinga og skattundanskotum.

711. mál
[16:55]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem fyrst og fremst hingað upp til að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið um þessa tillögu okkar þingmanna í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Ég þakka fyrir þann mikla stuðning sem við höfum heyrt frá þingmönnum stjórnarandstöðunnar en líka frá nokkrum hv. þingmönnum Framsóknarflokksins. Það er ánægjulegt.

Ég held að það skipti miklu máli að Alþingi Íslendinga taki þessi mál til umræðu. Við sjáum það þegar við skoðum heimsmiðlana — ég fylgi fordæmi hv. þingmanns sem hér talaði á undan mér að horfa aðeins út fyrir okkar litla land því að það er bara einn angi af þessu máli, þetta er alþjóðlegt vandamál — að mjög víða eru ríkisstjórnir og þjóðþing að grípa til mjög afgerandi aðgerða. Það er gert með mismunandi hætti.

Sums staðar hafa verið skipaðar nefndir sem beinlínis eru þá undir þeim yfirvöldum sem eiga að berjast gegn spillingu. Settar hafa verið á laggirnar nefndir þar sem verið er að þætta saman skattrannsóknir ríkisskattstjóra og aðrar sem mesta þekkingu hafa á efninu. Það er kannski það sem við erum að leggja til hér; við erum að leggja til sérfræðinefnd. Þar getur maður ímyndað sér að komi saman þeir sem gerst til þekkja og starfi saman og nýti þá þekkingu sem þeir hafa. Bankar hafa verið að skipa sérstakar rannsóknir innan dyra, til dæmis í Kanada. Þar hafa stærstu bankarnir stigið fram og skipað innri rannsóknir á sínum efnum. Þannig að við sjáum viðbrögð um allan heim. Norðurlöndin hafa öll sett í gang sérstök ferli til að fara í rannsóknir, hvort sem það er fjármálaeftirlitið á viðkomandi stað, stofnanir skattstjóra eða einhvers konar þverfaglegar nefndir eins og hér er lagt til.

Það er áhugavert að það er meira að segja komin færsla á Wikipediu, þó að hún sé auðvitað ekki altæmandi heimild um allt saman, þar sem farið er yfir viðbrögð stjórnvalda við Panama-skjölunum. Þar segir kannski ekki mikið um Ísland annað en að greint er frá afsögn hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og borgarfulltrúans Júlíusar Vífils Ingvarssonar. Ég mundi gjarnan vilja sjá þessa færslu á Wikipediu breytast þannig að fram kæmi að Alþingi og stjórnvöld hefðu ákveðið að rannsaka þessi mál og fara ofan í saumana á því. Það sem er gott við þessa umræðu er að við erum að færast nær, að ég held, sameiginlegum skilningi á því hversu mikil meinsemd skattaskjólin eru. Þau snúast nefnilega ekki bara um skattundanskot, þau sjónarmið heyrast vissulega hér í þessum sal, þau snúast líka um þá leynd sem hvílir yfir eignarhaldinu sem gerir eigendum eigna í þessum aflandsfélögum kleift að velja sér sína eigin skattprósentu sem er ekkert sem venjulegur almenningur í þessu landi á kost á. Leyndin skekkir líka samkeppnisstöðu þeirra sem eru með slík félög gagnvart öðrum sem vilja bara reka sín fyrirtæki í því regluverki sem við höfum sammælst um í okkar lýðræðissamfélagi. Það er þessi skekkja sem er svo óheilbrigð fyrir samfélagið allt og viðskiptalífið allt.

Ég hefði haldið að allir sem vilja heilbrigt viðskiptalíf ættu að vera áfram um að við gerum hvað við getum til að berjast gegn skattaskjólunum. Það verður ekki bara gert hér á landi, það verður gert með alþjóðlegu samstarfi. En það að átta sig á umfanginu og áhrifunum á samfélagið er fyrsta skrefið.

Ég vil að lokum, herra forseti, þakka fyrir ágæta umræðu. Ég vonast svo sannarlega til þess að hún sé vísbending um að við munum taka málið til meðferðar í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Ég vona svo sannarlega að við munum ná lendingu um að afgreiða þetta mál með einhverjum þeim hætti þannig að við munum sem samfélag læra af þessu öllu saman, læra og fá í staðinn breytingar sem gera að verkum að við munum geta byggt hér upp heilbrigðara viðskiptalíf. Ég held að það sé til mikils að vinna.