145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fullgilding Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum.

[15:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Hæstv. umhverfisráðherra fór og undirritaði fyrir hönd Íslands Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum á dögunum, en eins og ítrekað hefur komið fram höfum við ákveðið ásamt öðrum Evrópuríkjum að draga úr losun um 40% að meðaltali. Það sem er fram undan hvað varðar þetta risavaxna mál sem ætti að vera á borðum okkar hér á hverjum degi er að Parísarsamkomulagið verður þá fyrst að alþjóðalögum 30 dögum eftir að þau 55 ríki sem losa að minnsta kosti 55% af gróðurhúsalofttegundum á alþjóðavísu hafa fullgilt samkomulagið. Að sjálfsögðu ætti það að vera markmið okkar að fullgilda þetta samkomulag sem allra fyrst til þess að samkomulagið verði þannig að alþjóðalögum.

Frakklandsforseti hefur rekið þetta mál mjög á alþjóðavísu ásamt umhverfisráðherra sínum, Ségolène Royal. Markmið þeirra er að þessi skilyrði, þ.e. að 55 ríki sem bera ábyrgð á 55% af losuninni, hafi verið fullgilt fyrir mikilvægan fund á sviði loftslagsmála sem haldinn verður í Marakess í nóvember.

Ég sé hins vegar ekki tillögu á hinni frægu þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar um þau brýnu mál sem nauðsynlegt er að klára, hvorki undir merkjum hæstv. utanríkisráðherra né hæstv. umhverfisráðherra, um fullgildingu á Parísarsamkomulaginu. Ég hlýt að líta svo á að þarna hafi bara orðið einhver ruglingur og frumvarp um timburvörur hafi óvart slæðst inn í staðinn fyrir fullgildingu loftslagssáttmálans því að ég trúi ekki öðru en að við munum ljúka fullgildingu í maí. Mig langar að spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Verður því ekki lokið hér núna í vor? Er eftir nokkru að bíða? Ísland getur ekki (Forseti hringir.) látið bíða eftir sér í þessu máli.