145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fullgilding Parísarsamkomulagsins í loftslagsmálum.

[15:16]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka enn og aftur undirtektir. Við fylgjumst með því að Noregur hefur hafist handa og erum í miklu samfloti með Noregi, þingmenn vita að við fylgjum Noregi eftir og báðar þessar þjóðir eru síðan með ESB í sameiginlegu samkomulagi. Eðli málsins samkvæmt hlýtur margt að vera líkt með þessum tveimur þjóðum. Okkur fannst bara eðlilegt að taka þetta í skrefum en einnig hefðum við gjarnan viljað fá tíma til að sjá svolítið betur á spil Evrópusambandsins, hvernig þeir ætla að taka á málum, við erum með þeim. En vinnan er hafin og við munum reyna að gera þetta sem allra fyrst og fylgjast mjög vel með hvað Norðmenn gera og ljúka samkomulaginu með sóma á þessu þingi. Það þætti mér mjög ákjósanlegt.