145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

fjölgun vistvænna bifreiða.

[15:20]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspurnina og jafnframt þann áhuga sem er hér á loftslagsmálum. Ég tel að þau séu mál málanna, hvort sem það er hér á landi eða annars staðar, og rafbílavæðing er vissulega mjög stór hluti varðandi það. Það er rétt sem þingmaðurinn hélt fram, við ættum að geta gert það auðveldlegar en margir aðrir þar sem við eigum okkar vistvænu orku og loftslagsvænt rafmagn.

Ég kynnti sóknaráætlun í loftslagsmálum. Þar er einmitt rafbílavæðingin einn stærsti liðurinn. Það er verið að vinna að þessu og ef þingmaðurinn kýs að senda fyrirspurn fær hún nákvæmlega að vita hvernig vinnan stendur, en ég get fullvissað hana um að síðast í morgun vorum við að ræða innan ráðuneytisins um rafbílavæðinguna. Ég held að ég hafi sagt áður úr þessum stól varðandi rafbílavæðingu að það hafi komið okkur svolítið á óvart varðandi hleðslustöðvar að hægt væri að koma þeim fyrir í fjölbýlishúsum. Við skoðuðum það meðal annars við endurskoðun á byggingarreglugerð svo ég upplýsi þingmenn um það. Menn voru með nokkrar áhyggjur af brunavarnamálum ef það væri gert þannig að það ylli töfum og við þurftum að skoða það og erum að skoða það betur.

Það sem við ætluðum sérstaklega að gera varðandi sóknaráætlun var að koma á svokölluðum hraðhleðslustöðvum vítt og breitt um landið, reyna að hringvæða hringveginn með hleðslustöðvum þannig að menn gætu ekki bara notað slíka bíla innan borgarmarkanna, þ.e. á suðvesturhorninu, heldur um allt land.