145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:25]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Nú er ég búin að vera svolítið að grúska í þingmálaskrá forsætisráðherra og ráðuneytis hans sem og annarra ráðherra þessarar ríkisstjórnar. Mig langar að spyrja forsætisráðherra hvort hann trúi því raunverulega að hægt sé að ljúka þeim málum sem eru á þessum lista þannig að um vandaða stjórnsýslu sé að ræða. Nú eru ekki margir dagar eftir af þessu þingi og meðal þess sem maður heggur eftir þegar maður lítur á mál nr. 2 er:

Frumvörp til stjórnarskipunarlaga: þjóðaratkvæðagreiðslur, náttúruauðlindir, umhverfisvernd.

Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hann hafi einhverjar áætlanir um að afgreiða breytingar á stjórnarskrá. Mér skilst að nefndin sé að hittast í dag, en mig langar að spyrja ráðherrann hvort einhverjar líkur séu á því að þessar breytingar sem eru töluvert miklar frá þeim tillögum sem komu frá stjórnlagaráði verði lögfestar samkvæmt hefðbundnum leiðum þegar þing er rofið. Mig langar að heyra hver vilji ráðherrans er í þessu efni.

Ef maður flettir síðan í gegnum yfirlit um stöðu þingmála kemur fram að 24 mál bíða umræðu. Þar af er 21 mál sem bíður 1. umr. Og 27 mál eru í nefndum. Síðan á eftir að flytja skýrslur. Síðan er náttúrlega alveg gríðarlega mikið magn af þingmannamálum. Hvernig sér hæstv. forsætisráðherra fyrir sér að við náum að gera þetta (Forseti hringir.) svo bragur sé á og við höfum vandaða stjórnsýslu?