145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

afgreiðsla þingmála fyrir þinglok.

[15:29]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það er alveg magnað hvernig fólki sem er komið í ráðherrastól og í ríkisstjórnir finnst í lagi að haga málum á þinginu. Það er alveg magnað. Það er nákvæmlega sama fólkið og gagnrýndi allt of langar málaskrár ríkisstjórnar þegar það var ekki í ríkisstjórn. Það eru örfáir þingdagar eftir þó svo að við framlengjum þingið fram í júní og þó svo að við höfum nokkra daga í ágúst. Það hlýtur öllum að vera ljóst að ekki er hægt að leggja af stað með 75 ný mál ásamt öllum þeim málum sem hér hvíla inni á Alþingi og ætlast til þess að maður geti keypt þann þvætting að hægt sé að gera þetta að vandaðri stjórnsýslu. Við vitum það öll, allir sem hafa verið á Alþingi vita að ekki er hægt að koma með svona stór og flókin og jafnframt umdeild mál inn í þingið og ætlast til vandaðrar stjórnsýslu. Ég óska eftir því og ég krefst þess að við fáum að sjá nákvæman forgangslista hjá þessari ríkisstjórn um hvaða mál er þjóðhagslega (Forseti hringir.) brýnt að gera og þessi ríkisstjórn telur sig eina geta gert.