145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

réttindabrot á vinnumarkaði.

[15:32]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég hlýt að byrja á því að segja að mér finnst svolítið vont að koma inn í þennan dagskrárlið og láta eins og allt sé bara eins og hlutir eiga að gerast. Ríkisstjórnin skuldar okkur það að ákveða kjördag. Í þjóðfélaginu eru uppi kröfur um að þær fari fram strax. Ríkisstjórnin finnst mér gera gys að þeim langa málalista sem liggur fyrir. Það er algerlega óþolandi fyrir okkur að taka þátt í þessum þingstörfum. Engu að síður eru líka brýn mál sem þarf að spyrja um. Þess vegna ætla ég að gera það núna.

Í ræðum manna í gær, 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi launafólks og verkamanna, lýstu forkólfar áhyggjum sínum af miklum brotum á réttindum verkamanna, ungs fólks. Unga fólkið þekkir ekki réttindi sín og það er brotið á því sem og erlendum starfsmönnum sem koma til starfa í þeirri miklu uppbyggingu sem hér er. Þetta er alveg gífurlega alvarlegt mál. Þó að ég sé ekki þeirrar skoðunar að ríkisstjórnin eða stjórnvöld almennt eigi að vera með nefið ofan í hvers manns koppi er þetta mál sem þarf að skipta sér af. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún hafi haft samband við aðila vinnumarkaðarins um þessi mál, hvort hún geti sagt okkur hvort stjórnvöld hyggi á einhverjar ráðstafanir til að koma í veg fyrir þetta sem er okkur ósómi. Þetta er hinn mesti ósómi. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort hún geti frætt okkur um að hún hafi gripið til einhverra ráða í þessum efnum.