145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

réttindabrot á vinnumarkaði.

[15:34]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir að taka þetta mál upp einmitt hér í fyrirspurn. Ég tek undir með henni, þetta er eitt af því sem ég tel að við öll eigum að hafa áhyggjur af. Þetta er hluti af þeirri þenslu og þeim hagvexti sem við sjáum á íslenskum vinnumarkaði, svo virðist sem einhver hluti vinnumarkaðarins telji að hann geti brotið á réttindum fólks með þeim hætti sem hefur meðal annars birst í fjölmiðlum.

Ég hef lagt á það ríka áherslu við mitt starfsfólk í ráðuneytinu og gagnvart mínum undirstofnunum, Vinnumálastofnun og Vinnueftirlitinu, að við eigum að gera allt sem við getum til að styðja við aðila vinnumarkaðarins til að tryggja að þau réttindi sem má finna í kjarasamningum og lögum verði virt. Ég tel að hið aukna samstarf og eftirlit hjá þessum aðilum sé ein af ástæðunum fyrir því að við höfum séð mál koma upp og vera til umfjöllunar í fjölmiðlum. Fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, Vinnumálastofnun og ríkisskattstjóri hafa hist reglulega til að skiptast á upplýsingum og styðja hver við annan í þessari vinnu.

Ég hef líka sagt að ef það er eitthvað sem þarf að fara í hvað varðar lagaumhverfið er ég tilbúin að gera það og koma þá með enn eitt málið inn í þingið ef það er nauðsynlegt.

Það er verið að undirbúa samstarfsyfirlýsingu sem ég vonast til að geta kynnt á næstu dögum þar sem við erum einmitt að skerpa á því sem ég er að tala um.