145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

réttindabrot á vinnumarkaði.

[15:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði, ég hef áður svarað fyrirspurn frá hv. þm. Helga Hjörvar þar sem ég fór nánar í gegnum það hvað við höfum verið að gera. Ég hef lagt ríka áherslu á það við mína starfsmenn og mínar undirstofnanir að við séum til staðar til að geta stutt aðila vinnumarkaðarins í að tryggja að hér sé farið að lögum. Við höfum fundað reglulega. Við höfum farið yfir og undirbúið það ef talin er nauðsyn á að gera lagabreytingar en jafnframt að nýta þann lagaramma sem er nú þegar til staðar. Þau mál sem meðal annars hafa komið upp grundvallast á þessu samstarfi milli aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera. Við erum að senda mjög skýr skilaboð um að þetta verði ekki liðið.

Ég ætla að fá að túlka orð hv. þingmanns með þeim hætti að hún sé að taka undir þessar áherslur hjá okkur. Enn á ný, hér er um samningsbundin réttindi að ræða, það á að fylgja kjarasamningum og það á að skila sínu.