145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

verðmat á hlut Landsbankans í Borgun.

477. mál
[15:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Í mars síðastliðnum var skriflegri fyrirspurn hv. þingmanns um sambærilegt efni svarað eins og hægt var og um leið ljósi varpað á samskipti mín við Bankasýslu ríkisins þar sem ég hafði farið fram á við Bankasýsluna að hvaðeina er máli skiptir og varðar sölu Landsbankans á Borgun yrði upplýst og málið afgreitt með þeim hætti að traust til bankans og stjórnenda hans yrði tryggt.

Niðurstaðan af athugun Bankasýslunnar á málinu samkvæmt bréfi til mín þann 14. mars er sú að sölumeðferðin á Borgun hf. hafi varpað verulegum skugga á árangur Landsbankans undanfarin missiri og að fagleg ásýnd bankans og stjórnenda hans hafi beðið hnekki.

Þessu er ég sammála enda er það verulega gagnrýnivert að ekki hafi verið farin leið opins söluferlis á eignum bankans. Það er í andstöðu við eigendastefnu ríkisins sem hefur það meginmarkmið að stuðla að uppbyggingu heilbrigðs fjármálakerfis og byggja upp traust og trúverðugleika á íslenskum fjármálamarkaði.

Þá kom fram í bréfinu þann 14. mars síðastliðinn að Bankasýslan teldi að bankaráðið yrði að grípa til viðeigandi ráðstafana til að endurheimta það traust og þann trúverðugleika sem þessi sölumeðferð á hlutnum í Borgun hefði kostað bankann. Fór Bankasýslan fram á að brugðist yrði við þessu fyrir aðalfund 14. apríl.

Í ljósi þessarar atburðarásar og með vísan til upphaflegs bréfs míns til Bankasýslunnar og bæði munnlegra og skriflegra fyrirspurna sem hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín um þetta mál á Alþingi hef ég ítrekað við Bankasýslu ríkisins að hún svari ítarlega hverju því er máli skiptir í þessu sambandi, geri grein fyrir niðurstöðu málsins og til hvaða úrræða gripið hefur verið vegna þess, bæði af hálfu stofnunarinnar og bankans sjálfs.

Ég á að sjálfsögðu ekki von á öðru en að Bankasýslan upplýsi um þessi atriði mjög fljótlega og þá mun ég samstundis leggja fram skýrslu á Alþingi sem inniheldur öll svör og niðurstöðu Bankasýslunnar sem berast fjármálaráðuneytinu og vænti þess að við getum tekið umræðu um þá skýrslu á þinginu.

Ég bind vonir við að bæði ég og fyrirspyrjandi fáum frá Bankasýslunni svör við þeim fyrirspurnum sem fyrirspyrjandi beinir hér til mín sem og nánari útskýringar. Meðal annars er spurt hvernig staðið hafi verið að verðmati á hlut bankans í Borgun og hvers vegna ekki hafi verið gerðir fyrirvarar um auknar greiðslur. Um þetta tvennt verð ég að svo stöddu að vísa til bréfs Bankasýslunnar frá 14. mars þar sem með fylgdi bréf sem Bankasýslan hafði sent bankaráði Landsbankans þann 11. mars. Í því bréfi kemur fram varðandi verðmatið, með leyfi forseta:

„Í svarbréfi bankans bls. 17 kemur fram að verðmat á eignarhlut í Borgun byggði á sjóðstreymisgreiningu á grunni rekstraráætlana stjórnenda þar sem áætlað hefði verið hversu mikinn hlut af hagnaði félagsins mætti greiða í arð.“

Í bréfi Bankasýslunnar kemur fram varðandi fyrirvarann sem sérstaklega er spurt um, með leyfi forseta:

„Í svarbréfi Landsbankans bls. 3 kemur fram að bankinn vissi að valrétturinn væri fyrir hendi. Það hafi hins vegar verið skilningur bankans að vegna sögulegra tengsla Valitor við Visa Europe og yfirburða markaðshlutdeildar félagsins í útgáfu Visa-korta mundi Valitor, eitt íslenskra kortafélaga, eiga tilkall til ávinnings í kjölfar hugsanlegrar nýtingar valréttarins.“

Þetta eru meðal annars þau svör sem Bankasýslan hefur gagnrýnt bankaráð Landsbankans fyrir og hefur krafist viðbragða um hvernig bankaráðið hyggist endurheimta það traust og þann trúverðugleika sem þessi sölumeðferð á hlutnum hefur kostað bankann.

Það er eins og áður segir brýnt að fá skjót svör við því frá Bankasýslunni til hvaða viðbragða hefur verið gripið og mat Bankasýslunnar eftir atvikum á því hvort þau viðbrögð teljist fullnægjandi.

Ég á erfitt með að láta hjá líða hér að lokum að minnast á það vegna þeirra mála sem hv. fyrirspyrjandi vék að, þ.e. arðgreiðslna og mögulegs verðmats á félaginu sem við erum svo sem ekki að fara að ræða í hörgul hér, að ríkið er í gegnum eignarhald sitt á Íslandsbanka mikill meirihlutaeigandi að umræddu fyrirtæki. Það eru þá góðar fréttir fyrir ríkið sem eiganda Íslandsbanka ef rétt reynist (Forseti hringir.) að félagið sé orðið þetta mikils virði og það hefur þá ekki verið tekið tillit til þess við útreikninga á stöðugleikaframlaginu.

Það eitt og sér breytir engu um kjarna þess máls sem við erum hér að ræða og varðar það að fara skal rétt með og vanda sig þegar farið er með sölu á eignum ríkisins.