145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[15:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn minni til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra af því að hann fer með hlut íslenska ríkisins í Landsvirkjun og flutti þar ræðu á síðasta ársfundi Landsvirkjunar. Sú ræða hefur reyndar ekki verið birt á heimasíðu fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem er miður því að þetta var góð ræða, en ég hafði þá fyrirhyggju að skrifa niður helstu punkta í ræðu hæstv. ráðherra sem mér fannst mjög athyglisverð og ætla að fá að deila þeim með þingheimi.

Hæstv. ráðherra benti á að hálendi Íslands væri einstakur staður á heimsvísu og tilfinningarök hefðu einatt þótt léttvæg í umræðu um orkunýtingu og orkuöflun. Þau rök hefðu oft ekki komist að með sanngjörnum hætti þegar rætt væri um náttúruvernd, þau rök að friða ákveðin svæði vegna fegurðar þeirra og gildis, tilfinningagildis. Hæstv. ráðherra nefndi að mikilvægt væri að átta sig á því að margir gætu verið reiðubúnir að seinka uppbyggingu annarra innviða til þess að vernda tiltekin svæði og taldi að sá hugsunarháttur væri að verða algengari og það væri jákvætt því náttúran hefði gildi í sjálfri sér, ótengt því hvaða ímynd og sjálfsmynd við vildum viðhalda. Mér fannst þetta merkileg ræða hjá hæstv. ráðherra og fannst hún sæta nokkrum tíðindum.

Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra nánar um þetta í ljósi þess að nú hefur talsvert verið rætt um þann möguleika að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands einmitt með þeim rökum sem hæstv. ráðherra nefndi að svæðið er einstakt á heimsvísu, þar er gríðarleg fegurð, og hins vegar getur við ekki horft fram hjá því að það eru fyrst og fremst virkjanir og háspennulínur sem geta ógnað þessu svæði ef við horfum til uppbyggingar annars konar starfsemi. Þetta hefur auðvitað lengi verið hitamál í sölum Alþingis þegar við ræðum einstaka virkjanir og einstakar línulagnir. Hér liggur fyrir tillaga og meira að segja tvær tillögur frá þingmönnum Vinstri grænna annars vegar og þingmönnum Samfylkingar hins vegar um að þetta svæði verði gert að þjóðgarði. Ferðaþjónustuaðilar, útivistarsamtök og náttúruverndarsamtök hafa saman skrifað undir ákall til Alþingis um að við stígum þetta skref og friðlýsum miðhálendið og gerum það að þjóðgarði. Það mundi þýða að við værum að samþykkja að halda línulögnum og virkjunum utan við svæðið. Þetta er því stórmál fyrir það fyrirtæki sem hæstv. ráðherra fer með eignarhlut í. En merkilegt er líka að sjá að samkvæmt ítrekuðum skoðanakönnunum er meiri hluti landsmanna fylgjandi þeim hugmyndum um að miðhálendið verði gert að þjóðgarði.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji rétt (Forseti hringir.) að þessi möguleiki verði skoðaður og, í ljósi ágætrar ræðu hans á ársfundi Landsvirkjunar, hvort þetta sé ekki bara eitthvað sem við getum ráðist í hér á Alþingi.