145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[16:11]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað bara til að undirstrika það að sífellt verður meiri og meiri samhljómur um þessi mál. Þótt ég taki undir með hæstv. ráðherra um að málin beri að skoða vel finnst mér líka alveg þess virði að nefna að Píratar hafa nýlega samþykkt stefnu í málaflokknum. 10. september 2015 lagði hv. þm. Árni Páll Árnason og Samfylkingin fram þingsályktunartillögu um þjóðgarð á miðhálendinu. Þann sama dag var lögð fram af hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur og Vinstri grænum tillaga svipaðs eðlis og 20. apríl á þessu ári samþykktu Píratar eftirfarandi stefnu, með leyfi forseta:

„Að stofnaður verði þjóðgarður sem nær yfir allt miðhálendið.

Að unnin verði stjórnunar- og verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn í samræmi við leiðbeiningar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN).

Að landsskipulag taki mið af stjórnunar- og verndaráætlun miðhálendisþjóðgarðs.

Að tryggt verði fjármagn til að standa að uppbyggingu þjóðgarðsins og halda þar uppi öflugri landvörslu og tilheyrandi fræðslu.“

Mig langaði að koma þessu á framfæri við umræðuna.