145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

friðun miðhálendisins.

729. mál
[16:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Þetta hefur verið góð umræða og á margan hátt upplýsandi um ólík viðhorf í þinginu en dregur um leið fram að það er nokkuð góður samhljómur. Það er einmitt vegna þess að það þarf að taka afstöðu til ólíkra verndarsvæða og mismunandi skilyrða fyrir friðun á svæðum innan slíks mögulegs þjóðgarðs sem ég fyrir mitt leyti er ekki tilbúinn til að gefa opið svar og segja: Já, ég styð þjóðgarð á miðhálendinu. Ég veit ekki nákvæmlega hvað í því felst. Alveg með sama hætti finnst mér mjög dapurlegt þegar menn ganga fram í umræðu um þjóðgarð á miðhálendinu og halda því fram, eins og ég hef orðið var við, og ég er ekki að beina orðum mínum til þingmanna en hér fyrir ekki löngu síðan var haldinn alþjóðlegur blaðamannafundur um þetta efni. Þar var því haldið fram að sá sem hér stendur og þáverandi forsætisráðherra væru áhugasamir um að virkja á 80 stöðum á miðhálendinu. Og við værum slíkir sveitalubbar, var sagt í framhaldinu, eða „hillbillies“, eins og það var sagt á enskunni, að þetta yrði bara að stöðva strax. Þetta er dæmi um málflutning sem stenst enga skoðun. Algerlega úr lausu lofti gripið og ekki til þess að efla samstöðu um jafn mikilvægt mál og við erum að ræða. Það sem varðar víðernin og óspillta náttúru á Íslandi eru hlutir sem eru samofnir, ekki aðeins menningu þjóðarinnar og sögu heldur uppvaxtarárum allra sem hér eru inni, tel ég. Það er eitt það versta sem sagt verður um menn að þeir hafi ekki tilfinningar til náttúrunnar eða skilji ekki gildi þess að vernda það sem hefur verðmæti út frá þeim (Forseti hringir.) mælikvörðum, af því að það er svo fjarri lagi. Það eina sem ég held að við séum í raun og veru að tala um er hvernig við förum inn í þetta mál og hvernig við leiðum fram góða niðurstöðu.