145. löggjafarþing — 105. fundur,  2. maí 2016.

Fell í Suðursveit og Jökulsárlón.

725. mál
[16:20]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Síðustu daga og vikur hefur verið töluverð umræða um stöðu jarðarinnar Fells í Suðursveit og fyrirhugaðrar sölu á henni.

Ástæðan er vitaskuld lega jarðarinnar þar sem austari bakki Jökulsárlóns tilheyrir jörðinni Felli en vestari bakki lónsins er þjóðlenda í eigu ríkisins.

Jökulsárlón er ein helsta náttúruperla okkar Íslendinga og gríðarlega vinsæll viðkomustaður ferðamanna.

Það segir sína sögu um mikilvægi svæðisins að Jökulsárlón hefur verið á náttúruminjaskrá síðan 1974. Lónið er einstakt sökum legu sinnar nálægt sjó og hinna tilkomumiklu ísjaka sem liggja iðulega á lóninu og rekur til sjávar.

Lífríki lónsins hefur hins vegar lítið verið rannsakað, en ólíkt öðrum íslenskum jökullónum er Jökulsárlón kvikt af lífi enda nálægðin við hafið mikil. Þá eru Breiðamerkursandur og Jökulsárlón afar hentugir staðir til að rannsaka jökla og jöklasögu, segja vísindamenn.

Eignarhald á þessu landi er því mikið hagsmunamál vegna ferðamannaiðnaðarins en þó enn frekar vegna náttúruverndar. Nú er kjörið tækifæri fyrir ríkið að stíga inn og eignast allt landið umhverfis Jökulsárlón.

Umhverfisverndarsamtökin Landvernd hafa til að mynda bent á að ef Jökulsárlón og Breiðamerkursandur væru í eigu þjóðarinnar og hluti af þjóðgarði, væru komnar forsendur til þess að hafa þar landvörslu á heilsársgrundvelli, vernda og vakta svæðið og jafnframt fræða og mennta gesti um einstaka náttúru og lífríki svæðisins.

Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Telur hún koma til greina út frá náttúruverndarsjónarmiði að ríkið kaupi jörðina Fell í Suðursveit sem er við Jökulsárlón eða taki hana eignarnámi og greiði fyrir eignarnámsbætur? Útlit er fyrir að jörðin verði boðin upp.

Það er rétt að taka það fram að frá því að þessi fyrirspurn var lögð fram hefur sýslumaðurinn á Suðurlandi tekið ákvörðun um að setja jörðina á sölu á almennum markaði og hætta við uppboðsleiðina, en ég tel það ekki breyta megininntaki spurningar minnar. Það stendur eftir.

Hins vegar vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Hver er afstaða ráðherra til þeirrar hugmyndar að Jökulsárlón verði hluti af Vatnajökulsþjóðgarði?